Össur: Ísland verður ekki selt á brunaútsölu

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra mbl.is/Brynjar Gauti

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði á fundi Samfylkingarinnar í dag að utanríkisþjónustan hafi fengið fullvissu um það að aðrar þjóðir séu reiðubúnar til að koma Íslendingum til aðstoðar. Hann sagði verja þyrfti eignir sem verðfalli fljótt. Segir hann það ljóst að Ísland verði ekki selt á brunaútsölu þrátt fyrir að hrægammar vofi nú yfir landinu.

Össur segir að það hafi örugglega enginn á fundinum verið jafn glaður og hann, nema kannski Hjörleifur eiginmaður hennar, að Ingibjörg Sólrún sé komin til landsins á ný.

Kallaður úr ræktinni

Hann segir að þau hafi verið í stöðugu sambandi á meðan hún dvaldi ytra. En þetta hefur verið erfiður tími og það er ekkert lát á því. Össur sagði á flokksfundinum að frá því að formannskosningunni í Samfylkingunni lauk árið 2005 hafi hann litið á sig sem starfsmann á plani.

„Ég brást þess vegna vel við þegar formaðurinn hringdi og lét rífa mig út úr líkamsrækt í World Class fyrir ég man ekki hvað mörgum dögum þar sem var að reyna að styrkja þennan stælta kropp sem þið sjáið fyrir framan ykkur, og bað mig um að vera sinn fulltrúi í því erfiða verkefni sem væri framundan.Ég hafði hins vegar enga hugmynd um hversu erfitt það yrði. Ég vissi auðvitað að það væru holskeflur framundan en mig óraðaði ekki fyrir því á þeirri stundu að það sem ég væri að stíga út í yrði jafn afdrifaríkt og myndi marka okkar samfélag jafn miklum mörkum og raun er að verða.

Þakklæti til Ingibjargar Sólrúnar Össuri efst í huga

Össur sagði að það sem væri honum efst í huga væri huga væri þakklæti til formanns síns, Ingibjargar Sólrúnar, hið fyrsta að hafa treyst honum til þessara verka en ekki síður þau ráð sem hún hafi gefið honum á hverri einustu nóttu. Sagðist hann aldrei hafa gengið til náða síðustu vikur án þess að hringja vestur um haf og upplýsa Ingibjörgu Sólrúnu um stöðu mála og fá hjá henni ráð. Ekkert hafi verið gert nema í samráði við hana.

 Jón Sigurðsson kletturinn á bak við ráðherra Samfylkingar

Sagði Össur á fundinum að þingmenn Samfylkingarinnar hafi staðið saman sem þéttur klettur allan tímann og verið reiðubúnir til þess að gera hvað eina sem þeir hafi verið beðnir um að gera. Þetta hafi verið gríðarlega mikilvægt þegar taka þurfi erfiðar ákvarðanir.

Hann segir ráðherrana hafa hist nánast daglega og farið saman yfir málin í algjörum trúnaði. Þeir hafi fengið til sín hóp sérfræðinga til aðstoðar. Til iðnaðarráðuneytisins hafi komið hópur hagfræðinga sem hafi hist nokkrum sinnum og farið yfir stöðu mála og verið bakland ráðherranna. Segir Össur að það sé á engan hallað ef hann nefni Jón Sigurðsson, fyrrum iðnaðarráðherra og bankastjóra og núverandi formann Fjármálaeftirlitsins. „Hann hefur verið sá klettur sem við höfum getað reitt okkur á."

Annar hópur hafi starfað á vegum viðskiptaráðuneytisins. Í honum hafi verið hópur sérfræðinga sem safnað hefði upplýsingum frá stundu til stundar þannig að ráðherrar Samfylkingar hafi ávallt verið vel upplýstir um stöðu mála. Hann sagði að þannig hafi þeir getað fylgst með útstreymi af reikningum íslensku bankanna úti og því vitað hvað væri að gerast.

Össur segir að Ásmundur Stefánsson hafi umboð ríkisstjórnarinnar til þess að ganga í öll mál og fá upplýsingar í öllum stofnunum til þess að geta gefið ráð um hvaða ákvarðanir þurfi að taka.

Mikilvægt að verja eignir

Össur segir að verja þurfi eignirnar og það skiptir afskaplega miklu máli hvernig við komum undan þeim erfiðleikum sem glímt er við. Það verður að verja eignirnar. „Reynslan sýnir að þegar fyrirtæki, ég tala nú ekki um heilt bankakerfi, lendir í vanda af þessu tagi þá rýrna eignirnar í verði og verðfalla fljótt. Það er þetta sem skiptir höfuðmáli núna. Að minnsta kosti í þeim tíma verkefnisins sem ég hef komið mest að. Góðar vonir eru til að það takist betur en við áttum von á," segir Össur.

Auðvitað er það markmið okkar að við ætlum ekki að láta hrægamma sem vofa yfir landinu taka þessar eignir á einhvers konar brunaútsölu. Ísland verður ekki selt á brunaútsölu. Þetta er kannski í stórum dráttum lýsing á atburðarásinni horft innan frá, segir Össur.

Hann segir það blasa við að taka þurfi mikilvægar ákvarðanir um það með hvaða hætti við leitum eftir alþjóðlegum stuðningi. „Það liggur alveg ljóst fyrir að Samfylkingin hefur lagt á það þunga áherslu að við leitum eftir aðstoð IMF, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins."

Veitum ekki afslátt af auðlindunum

Hann segir að utanríkisþjónustan hafi fengið fullvissu um það að aðrar þjóðir séu reiðubúnar til að koma Íslendingum til aðstoðar. Það sem skiptir máli núna er að taka þessa lykilákvörðun um Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

„Það næsta er að við sem flokkur, við sem ríkisstjórn, við sem þjóð, förum í það að byggja upp. Samstaðan skiptir öllu máli. Íslendingar hafa oft lent í vandræðum en þeir hafa í gegnum dimmar aldir alltaf borið gæfu til að standa saman, krækja saman örmum og það gerum við líka núna. Möguleikarnir eru miklu meiri en margir í andstreymi daganna sjá.  Það koma ekki bara upp týrur heldur ljós sem lýsa fram á veginn og við eigum svo gríðarlega mikla möguleika í okkar landi, í okkar auðlindum, og til þess að róa vinkonu mína og starfssystur Þórunni umhverfisráðherra, þá segi ég, það kemur aldrei til greina að fara í einhverja panik, að við Íslendingar veitum einhvern afslátt af auðlindum okkar. Það gerum við aldrei,” sagði Össur.

Hann sagði að hið nýja Ísland sem nú muni rísa muni verða töluvert öðru vísi en það sem var. Þar verði græn hátækni miklu mikilvægari  en áður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka