Íslendingar munu fagna áramótunum með hefðbundnum hætti. Það geta þeir þakkað kínverska flugeldaframleiðandanum Zhang Zong Lin, sem séð hefur Landsbjörg fyrir flugeldum um marga ára skeið. Hann ákvað að lána Landsbjörg fyrir flugeldunum vegna þess óvissuástands sem ríkir. Landsbjörg býst við minni sölu en undanfarin ár og hefur pantað minna magn en áður.
Að sögn Kristins Ólafssonar, framkvæmdastjóra Landsbjargar, var gengið frá pöntun á flugeldum í febrúar. Barst fyrsta sendingin til landsins í sumar. Í tengslum við Ólympíuleikana í sumar settu Kínverjar stopp á útflutning flugelda í tvo mánuði. Þegar seinni sendingin átti að fara af stað höfðu aðstæður gjörbreyst. Krónan var komin upp úr öllu valdi og vandræði með að yfirfæra gjaldeyri. „Við höfðum samband við framleiðandann í Kína og útskýrðum stöðuna. Hann sýndi okkur mikinn skilning og ákvað að lána okkur fyrir sendingunni. Við verðum bara að vona að ástandið verði komið í lag fyrir áramót svo við getum gert upp við hann,“ segir Kristinn. Hann segir þetta vinarbragð, því Landsbjörg byggi sína fjáröflun á sölu flugelda. Án flugeldasölunnar væri erfitt að halda starfsemi björgunarsveitanna gangandi. „Svo teljum við okkur hafa þær skyldur við þjóðina að hún geti haft það skemmtilegt um áramótin.“
Íslendingar hafa verið þekktir fyrir flugeldagleði um áramót og útlendingar hafa hópast til landsins til að fylgjast með gleðinni. Áætlað er að landinn hafi skotið upp flugeldum fyrir hundruð milljóna um hver áramót. En nú er búist við samdrætti, að sögn Kristins. Hann segir að Landsbjörg hafi pantað minna en undanfarin ár. Nú verður lögð áhersla á fjölskyldupakka og smærri hluti. Minna er pantað af dýrum risatertum, sem runnið hafa út eins og heitar lummur á undanförnum árum.