Bankastjórarnir með of há laun

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, flutti ávarp á þingi ASÍ í morgun.
Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, flutti ávarp á þingi ASÍ í morgun. mbl.is/Golli

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra sagði á ársfundi ASÍ fyrir skemmstu að launakjör bankastjóra hinna nýju ríkisbanka séu of há. Óvarlega hafi verið farið við ákvörðun þeirra, og of langt gengið. 

„Eiga skilaboðin til þjóðarinnar að vera þau, í ljósi nýliðinna atburða, að hæstu launin í öllu embættismannakerfinu skuli vera laun bankastjóra? Ég segi nei og þessu verður að breyta,“ sagði Jóhanna. Fyrir þessi ummæli uppskar Jóhanna lófatak frá ársfundarfulltrúum. Hún kvað nauðsynlegt að athuga hver aðkoma nýju ríkisbankanna að húsnæðislánakerfi landsins eigi að vera. Þar sagði hún að reynsla undanfarinna ára gæti kennt ráðamönnum margt.

Jóhanna kom víða við í ræðu sinni og sagði m.a. mikilvægt að slegið verði skjaldborg utan um þá sem höllustum fæti standa á vinnumarkaði, svo sem eldra fólk, fólk með skerta starfsgetu og erlent fólk, nú þegar aðstæður á vinnumarkaði fara versnandi.

Hún tilkynnti að hún hefði skipað fimm manna sérfræðingahóp til að kanna hvaða leiðir séu færar í því að bregðast við áhrifum verðtryggingar á greiðslubyrði skuldara. Hún sagði ekki þar með víst hver niðurstaðan af þeirri könnun verður. Þá viðraði Jóhanna hugmyndir um að heimildir til þess að skuldajafna vaxtabótum og barnabótum á móti opinberum gjöldum verði afnumdar.

Jóhanna gerði lífeyrisréttindi alþingismanna og embættismanna líka að umtalsefni. Hún sagði það skyldu stjórnvalda að ná fram meira jafnræði á því sviði. Hún sagði aldrei hafa verið verið mikilvægara en nú að afnema þau forréttindi sem ráðamenn njóta með sínum lífeyrisréttindum. Fyrir þau ummæli uppskar hún einnig lófatak.

„Skili ránsfengnum“ 

Ögmundur Jónasson flutti einnig ávarp á ársfundinum. Þar sagði hann óhefta markaðshyggju hafa leikið lausum hala um heimsbyggðina á síðustu árum. Hann gagnrýndi Geir H. Haarde forsætisráðherra og sagði langtímavanda þjóðarinnar mikinn. Hann sagði nauðsynlegt að gera þá kröfu að ekki verði skrifað upp á skuldaklafa fyrir börn Íslendinga um ókomna tíð.

Meginkröfuna sagði Ögmundur vera þá að þeir sem komu þjóðinni í ógöngur borgi fyrir það. „Þegar S-hópar einkavinavæðingarinnar hafa skilað ránsfeng sínum til baka,“ þ.e. tæmt sjóði sína til að að borga erlendar skuldir fjármálakerfisins, þá fyrst opni almenningur pyngjur sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert