Ungt fólk þingaði um málefni kirkjunnar

Þátttakendur í kirkjuþingi unga fólksins sjást hér ásamt biskupi Íslands …
Þátttakendur í kirkjuþingi unga fólksins sjást hér ásamt biskupi Íslands sem einnig sat þingið.

Kirkjuþing unga fólksins var haldið sl. föstudag í Grensáskirkju. Þingfulltrúar voru 15 – 30 ára þátttakendur í æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar. Þrjú mál lágu fyrir þinginu og snéru þau öll að starfi og þjónustu kirkjunnar. Þau voru rædd út frá sjónarhóli unga fólksins en í þeim hópi eru margir með mikla reynslu af kirkjulegu starfi, segir í tilkynningu.

Eftir framsögur var skipt í þrjár þingnefndir sem ræddu um bænalíf, boðun og þjónustu kirkjunnar. Þrjár ályktanir voru samþykktar og var þeim beint til Kirkjuþings Þjóðkirkjunnar sem hófst þann í gær.

Meðal þess sem Kirkjuþing unga fólksins lagði áherslu á var stuðningur við leiðtoga í æskulýðsstarfi, bæði með því að þjálfa þau í að leiða helgihald og með fleiri námskeiðum um  sálgæslu. Rætt var um ýmsa þætti æskulýðsstarfs kirkjunnar. Starfið er þátttakendum yfirleitt að kostnaðarlausu en þó eru stundum dagskrárliðir sem geta kostað eitthvað, svo sem ferðir og mót. Hvatt var til aðgátar hvað þetta varðar í dagskrárgerð og að kirkjur finni úrræði fyrir þau sem eiga erfitt með þátttöku vegna efnahags.

Á þinginu kom einnig fram hvatning til að efla boðun kirkjunnar í framhaldsskólum, með vísan til mikilvægis þess að sjónarmið kirkju og trúar þyrftu einnig að heyrast þar.

Rætt var um helgihald kirkjunnar og hvernig það henti ungu fólki. Minnt var á að bjóða þurfi upp á fjölbreyttara messuform, t.d. bænamessur, léttmessur, poppmessur, æskulýðsmessur, mótorhjólamessur og fleiri slíkar.

Þá lagði þingið til að  Þjóðkirkjan marki sér stefnu í æskulýðsstarfi í minni söfnuðum, með það í huga að vinna í samvinnu við  sveitarfélögin og stofnanir þess.  Einnig var lagt til að kirkjur landsins geti boðið upp á að lána efni bækur, hluti, myndir til notkunar í starfi í öðrum kirkjum í gegnum efnisveitu Þjóðkirkjunnar.

Kirkjuþing unga fólksins skoraði einnig á Þjóðkirkjuna að opna fyrir og fjölga möguleikum ungs fólks að taka þátt í þjónustu og hjálparstarfi.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert