Í bréfi sem Síminn hefur sent þeim viðskiptavinum sínum sem eru í áskrift að netþjónustu segir að gerð verði breyting á skilmálum internetþjónustunni frá og með 1. nóvember. Þar segir að Síminn áskili sér rétt á að lækka hraða tengingarinnar tímabundið hjá þeim sem hala niður meira en 10 gígabæt á viku.
„Þeir sem gætu fundið fyrir þessu eru innan við 5% viðskiptavina okkar, þetta snertir einungis stórnotendur, einn slíkur notandi sem hleður niður svo miklu magni getur kostað Símann allt upp í 100 þúsund krónur á mánuði," sagði Margrét Stefánsdóttir upplýsingafulltrúi Símans í samtali við mbl.is.
Aukinn kostnaður í efnahagskreppu
Margrét tók fram að kostnaður Símans vegna útlandasambanda hafi hækkað gríðarlega undanfarnar vikur og mánuði sökum efnahagsástandsins en sagði jafnframt að fyrirtækið muni skoða leiðir til að mæta þörfum þeirra fáu viðskiptavina sérstaklega sem nota erlent niðurhal í miklu magni.
Margrét sagði að lokum að þessi leið hefði verið farin frekar en að deila auknum kostnaði niður á alla viðskiptavini Símans.