Hópur stjórnenda og lykilstarfsmanna hjá Kaupþingi er með yfirlýsingu frá fyrri stjórn bankans í höndunum um að þeir þurfi ekki að greiða fyrir hluti sem þeir voru skráðir fyrir í félaginu árið 2004, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Kaupverð hlutanna hljóp á milljörðum króna. Stjórn Kaupþings samþykkti á sínum tíma að takmarka persónulega ábyrgð hópsins með sérstökum skilmálum.
Í yfirlýsingu sem Nýi Kaupþing sendi frá sér í gær kemur fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um uppgjör þeirra skulda sem ráðstafað hefur verið til bankans samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (FME). Að öðru leyti muni bankinn ekki tjá sig um atriði sem lúta að einkamálefnum viðskiptavina hans. Um er að ræða á fjórða tug einstaklinga og hluti þeirra starfar hjá Nýja Kaupþingi.
Samkvæmt upplýsingum frá FME var ekkert vikið að því í ákvörðunum eftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda nýrra banka hvernig ætti að fara með skuldbindingar starfsmanna bankanna heldur lúti þær sömu lögmálum og önnur lán sem fluttust yfir til þeirra.
Þar sem öll útlán í útibúum á Ísland hefðu verið flutt til nýju bankanna sé það þeirra að innheimta þær kröfur. FME segir það því rangt að það „hafi sérstaklega samþykkt niðurfellingu krafna eða trygginga sem tengjast lánveitingum bankanna.“
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra sagðist ekki hafa neinar upplýsingar um málið í gær en vissi að hvorki skilanefndir né nýjar bankastjórnir bankanna hafa tekið ákvarðanir um niðurfellingu krafna af þessu tagi.