Umfangsmikil kannabisræktun stöðvuð

mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði umfangsmikla kannabisræktun í íbúð í Garðabæ á sunnudag. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust um 60 kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Tveir karlar, annar á þrítugsaldri en hinn á fertugsaldri, voru handteknir og yfirheyrðir í tengslum við rannsókn málsins en efnin voru ætluð til sölu.

Yngri maðurinn, sem var handtekinn við komu til landsins aðfaranótt mánudags, var með rúmlega 100 grömm af kókaíni falin í endaþarmi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka