Fær 2,4 milljóna evra í rannsóknarstyrk

Bernhard Örn Pálsson.
Bernhard Örn Pálsson.

Bernhard Örn Pálsson, gestaprófessor við Háskóla Íslands og prófessor í lífverkfræði við University of California, San Diego hefur hlotið 2,4 milljóna evra styrk, jafnvirði um 400 milljóna króna, frá Evrópska rannsóknarráðinu. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tilkynnti þetta í dag.

Styrkurinn rennur alfarið til Háskóla Íslands en þetta er stærsti rannsóknastyrkur sem komið hefur til skólans. Við Háskólann er nú unnið að stofnun rannsóknaseturs í kerfislíffræði en styrkurinn verður nýttur til að koma rannsóknarsetrinu á fót og vinna að rannsóknum við setrið. Bernhard mun veita setrinu forstöðu. 

Í frétt frá Háskóla Íslands segir, að markmið Evrópska rannsóknarráðsins sé að styðja við brautryðjandi rannsóknir færustu vísindamanna heims, sem fara ótroðnar slóðir í rannsóknum sínum. Aðeins 10% umsókna séu styrktar af ráðinu. Það sé því mikill heiður og viðurkenning fyrir Bernhard og Háskóla Íslands að ERC hafi ákveðið að styrkja rannsóknarverkefni hans við Háskólann. Bernhard hafi verið leiðandi á sínu sviði í aldarfjórðung og marki rannsóknir hans í kerfislíffræði upphaf nýrra tíma á sviði lífvísinda.

Kerfislíffræði er nýtt og hratt vaxandi fræðasvið sem felur í sér kerfisbundnar rannsóknir á flóknum líffræðilegum ferlum, oftast með því að tengja saman ólíkar upplýsingar með notkun stærðfræðilíkana. Í verkefninu sem hlýtur styrk ERC er ætlunin að nota upplýsingar um genamengi lífvera til að byggja net sem lýsir öllum efnaskiptum fruma í mannslíkamanum. Þetta hefur þegar verið gert fyrir örverur, einkum bakteríur, og hefur aukið skilning á efnaskiptum þessara lífvera og bætt við nýjum og verðmætum upplýsingum.

Háskólinn segir, að hér sé ætlunin að gera þetta fyrir mannafrumur en þær séu mun flóknari að allri gerð og hafi miklu fleiri gen og efnaskiptaferla en örverur. Líklegt sé, að slíkar rannsóknir muni hafa mikil áhrif á skilning og þekkingu á sjúkdómsferlum í manninum.

Rannsóknarverkefni Bernhards og Háskóla Íslands mun ryðja brautina með því að nota aðferðir kerfislíffræðinnar við að greina efnaskiptaferla mannsins. Verkefnið er þríþætt, í fyrsta lagi að byggja efnaskiptanet, í öðru lagi að byggja reiknilíkön af efnaskiptaferlunum og í þriðja lagi að nýta líkönin og greiningu genamengja til að finna lyf til að stýra efnaferlum fruma úr mönnum.

Rannsóknarsetur í kerfislíffræði við Háskóla Íslands er samstarfsverkefni Heilbrigðisvísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, en kerfislíffræði er þverfræðileg í eðli sínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert