Landvernd hefur beint því til Skipulagsstofnunar að gera Alcoa að meta umhverfisáhrif þeirrar orkuöflunar, sem til þarf til þess að anna álveri á Bakka við Húsavík með allt að 350 þúsund tonna framleiðslugetu.
Landvernd telur líkt og Náttúruverndarsamtök Íslands, að með tillögu sinni að nærri 350.000 tonna álveri reyni Alcoa að komast hjá því að framkvæma af heilindum heildstætt umhverfismat fyrir álver, orkuöflun og orkuflutninga.
Landvernd segist hafa haft efasemdir um að orkuöflun fyrir 250.000 tonna álver gæti gengið eftir á jarðhitasvæðum í Þingeyjarsýslum einum og sér. Nú þegar horft sé til stærra álvers verði að teljast svo gott sem útilokað að jarðhitasvæðum í Þingeyjarsýslum anni orkuþörfinni. Fleiri virkjanir hljóti að þurfa að koma til og um þær beri að fjalla eigi umhverfismatið að teljast heildstætt.
Landvernd segir að annaðhvort eigi að meta umhverfisáhrif af minna álveri eða fjölga þeim virkjunarkostum sem lagt verður mat á í heildstæðu umhverfismati. Að öðrum kosti fáist ekki séð að vilji umhverfisráðherra um heildstætt umhverfismat nái fram að ganga.