Stefnt að 2,3 milljarða sparnaði

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri, kynna sparnaðartillögur …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri, kynna sparnaðartillögur utanríkisráðuneytisins.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segir að ráðuneytið leggi til 2,3 milljarða króna sparnað á næsta ári. Sendiskrifstofum erlendis verður  fækkað og hagrætt í rekstri annarra. Draga á úr framlögum til varnar- og þróunarmála.

Stefnt er að því að loka fjórum sendiskrifstofum og fækka sendiherrum um sex. Loka á fjórum sendiskrifstofum: sendiráði í Pretoríu, í Strassborg, Róm og einni skrifstofu til viðbótar. 

Hagrætt verður í húsnæðiskostnaði erlendis. Segir Ingibjörg Sólrún að áætlað sé að hægt verði að spara 500-1000 milljónir til viðbótar við þá 2,3 milljarða sem þegar hefur verið ákveðið að spara í rekstri utanríkisþjónustunnar. Hún segir að sendiherrum verði fækkað. Tveir láta af embætti um næstu áramót og fjórir síðar á árinu 2009.

Í varnarmálum verður dregið úr kostnaði um 257 milljónir króna og  þróunarsamvinna dregst saman um 1,6 milljarða króna á næsta ári. HVað varðar Varnarmálastofnun skiptist kostnaðurinn þannig að gerð er tillaga um sparnað í loftrýmisgæslu, 120 milljónir króna, sparnað í öryggisgæslu í Helguvík, 24 milljónir króna og almennri öryggisgæslu, 26 milljónir króna. Þá er gert ráð fyrir að ná megi 87 milljóna króna hagræðingu í öðrum rekstrarkostnaði.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir að útgjöld til þróunarsamvinnu verði 0,35% af þjóðarframleiðslu ársins 2008, sem er í samræmi við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar. Við endurskoðun á fjárlagaliðum utanríkisráðuneytisins vegna alþjóðlegrar þróunarsamvinnu hefur verið haft að leiðarljós að íslensk stjórnvöld standi við skuldbindingar, bæði alþjóðlegar og innlendar til að viðhalda trausti alþjóðasamfélagsins og þeirra félagasamtaka, stofnana og fyrirtækja sem ráðuneytið starfar með. Gerð er tillaga um að lækka heildarfjárhæð til þróunarsamvinnu í fjárlagafrumvarpinu um 1.666 milljónir króna. Miðað er við að þá nemi framlagið 0,24% af þjóðarframleiðslu ársins 2008. Framlög Íslands til þróunarsamvinnu nema skv. þessari áætlun 3.202 milljónum króna. 

Stór hluti útgjalda Þróunarsamvinnustofnunar er samningsbundinn. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir 510 milljóna króna aukningu á framlögum til stofnunarinnar. Lagt er til að fallið verði frá þeirri aukningu og að engin ný verkefni komi í stað þeirra sem lýkur. Með þessu móti er hægt að lækka framlagið um 38% frá núverandi fjárlagatillögu. Þar er gert ráð fyrir að einni skrifstofunni verði lokað á miðju ári 2009. Í tillögunum er einnig gert ráð fyrir að loka tveimur öðrum skrifstofum ÞSSÍ í byrjun árs 2010. 

Utanríkisráðherra segir að ráðuneytið muni endurmeta þátttöku í alþjóðlegum atburðum. Ljóst sé að Bókamessan í Frankfurt árið 2011 sé mikilvæg og ekki verði skorið þar niður.  Hins vegar verður kostnaður við heimssýninguna í Shanghai minnkaður um 71% frá því sem áður var ætlunin. Er lagt til að samanlagt framlag ríkisins lækki úr 485 milljónum króna í 140 milljónir króna. Lagt er til að óskað verði eftir 70 milljónum króna í fjáraukalögum 2008 í stað 120 milljóna og 70 milljónum króna í fjárlögum 2009 í stað 190 milljónir króna. Í heildina er því um að ræða 71% niðurskurð frá upphaflegri áætlun.

Á blaðamannafundinum kom fram að gerð er tillaga um fækkun starfsmanna erlendis sem hefur í för með sér flutning þeirra frá sendiskrifstofum til aðalskrifstofu. Þó að þetta leiði til kostnaðarlækkunar í heild hefur það í för með sér 72 milljón króna hækkun á kostnaði við rekstur aðalskrifstofu ráðuneytisins. Þar að auki er lagt til að færðar verði 30 milljónir króna af varnarmálalið ráðuneytisins vegna verkefna á sviði  varnarmála.

Gerð er tillaga um að tvö stöðugildi verði flutt frá New York til Íslands og ekki verði ráðið í stöðu aðalræðismanns Íslands í New York þegar núverandi aðalræðismaður lætur af störfum um áramótin. Gert er ráð fyrir að starfsemin verði endurskipulögð í framhaldi af þessu. Lagt er til að staða fulltrúa við sendiráðið í París verði lögð niður. Lagt er til að fastanefndum í Strassborg og Róm verði lokað á miðju ári og sendiráði Íslands í Pretoríu í febrúar. Lokun á þessum þremur stöðum skilar 109,1 milljón króna sparnaði á árinu 2009 en á ársgrundvelli 162,2 milljónum króna.

Þá verður hagrætt í starfsemi  sendiráðsins í Nýju Dehli og í Tókýó er gerð tillaga um að staða varamanns sendiherra verði lögð niður. Að auki er lagt til að sendiskrifstofur skili 30 milljón króna hagræðingu í rekstri.

Kristín Árnadóttir fær titil sendiherra og mun verða skrifstofustjóri stjórnunarskrifstofu í utanríkisþjónustunni. Með þessu á styrkja ráðuneytisins sjálfs.

Ingibjörg Sólrún sagði, að markmiðið sé að reyna að styrkja ráðuneytið sjálft. Mönnum hættir til að horfa á sendiráðin og ákveðna pósta í utanríkisþjónustunni. Mikilvægt við þær aðstæður sem Íslendingar búa við nú að endurvinna traust og orðspor Íslands í útlöndum.  Það sem við gerum hér heima hefur áhrif út í heimi. Við þurfum á vinum og bandamönnum að halda, sagði Ingibjörg Sólrún á blaðamannafundi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert