Danir vildu ekki bjarga Íslendingi

Ólafur Harðarson.
Ólafur Harðarson.

Ólaf­ur Harðar­son hef­ur í ára­tugi stundað sjó­mennsku og marga fjör­una sopið. Lýs­ing­ar hans af því þegar hann strandaði bát sín­um við Dan­mörku fyr­ir skömmu slá þó öllu við.

Þegar Ólaf­ur strandaði bát sín­um við Rand­ers á Jótlandi hélt hann að ekki væri spurt um þjóðerni þegar menn lentu í sjáv­ar­háska. Sú skoðun átti eft­ir að breyt­ast því fram­koma danskra við hann var með ólík­ind­um. Var hann skil­inn eft­ir kald­ur og blaut­ur og mat­ar- og vatns­laus eft­ir að hon­um hafði verið til­kynnt að danska ríkið hefði tekið bát­inn þar sem hann stóð.

Hann sagðist ekki hafa verið í beinni lífs­hættu á strandstað fyrr en hon­um tókst að losa bát­um eft­ir tvo sól­ar­hringa. Þá komu menn frá dönsku strand­gæsl­unni og heimtuðu að hann sigldi bátn­um aft­ur í strand en þegar hann neitaði tók Dani við stjórn­inni. Þjösnaðist hann þannig á vél­inni að Ólaf­ur hélt að hún myndi hrynja. Lauk hann sigl­ing­unni með því að sigla, vilj­andi að mati Ólafs, með það mikl­um hraða á bryggj­una þegar þeir komu í höfn, að stefn­isper­an skemmd­ist.

„Ég veit hvað þeim gekk til og ég hélt að mönn­um í sjáv­ar­háska væri alltaf bjargað án skil­yrða,“ sagði Ólaf­ur í sam­tali við Morg­un­blaðið í gær. Nokkuð er um liðið síðan þetta gerðist en Ólaf­ur seg­ist rétt vera að ná sér eft­ir þessa lífs­reynslu og fyrr hafi hann ekki verið til­bú­inn að greina frá henni.

Ólaf­ur bjó í Vest­manna­eyj­um með hlé­um frá 1976 til 1998 að hann flutti til Nor­egs þar sem hann hef­ur búið síðan. Í haust keypti hann sér 11 metra plast­bát í Eyj­um sem fara átti til Dan­merk­ur með Sam­skip­um. Þaðan ætlaði að hann vera í sam­floti með öðrum Íslend­ingi til Nor­egs. Það gekk ekki eft­ir því fyr­ir mis­skiln­ing lenti bát­ur Ólafs í Svíþjóð og þegar hann loks fékk bát­inn var fé­lag­inn far­inn.

Hressi­leg­ur hvell­ur og bát­ur­inn í strand

Þetta kostaði mikl­ar taf­ir og var hann orðinn hátt í tveim­ur vik­um á eft­ir upp­haf­legri áætl­un þegar hann lagði upp frá Grena föstu­dag­inn 24. októ­ber sl. Sigldi hann áleiðis í Lima­fjörðinn þar sem hann ætlaði að hvíla sig. „Það gekk allt að ósk­um þar til að hann gerði allt í einu hressi­leg­an hvell. Það gekk stöðugt yfir bát­inn og ákvað ég að fara inn til Rand­ers sem er rétt sunn­an við Lima­fjörð. Það var erfitt að rekja sig eft­ir bauj­un­um og allt í einu sigldi bát­ur­inn í strand og stóð fast­ur. Seinna komst ég að því að ljós vantaði á tvær bauj­ur og að mik­ill straum­ur er á þessu slóðum sem var senni­lega or­sök­in fyr­ir því að ég strandaði.“

 Bát­ur­inn var pikk­fast­ur, hallaði um tólf til fimmtán gráður en Ólaf­ur taldi sig ekki í bráðri hættu, lend­ing­in hafði verið mjúk á sand­botn­in­um. „Ég ákvað að bíða það sem eft­ir var næt­ur en dvöl­in um borð var öm­ur­leg. Það pusaði stöðugt yfir bát­inn og ég bæði blaut­ur og kald­ur.“

Strax þegar birti var stöðugur straum­ur báta og skipa fram­hjá bátn­um og Ólaf­ur sá að hann var strand um 400 m frá höfn­inni í Rand­ers. „Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég var með ís­lenska fán­ann uppi að flest­ar trill­urn­ar sigldu fram hjá. Sum­ar stoppuðu þó og einn bauðst til að kippa í mig en vildi fá 5.000 krón­ur dansk­ar staðgreitt fyr­ir. Þegar ég benti hon­um á að ég væri ekki með hraðbanka um borð fór hann í burtu,“ sagði Ólaf­ur og fannst lítið til um viðmót Dan­anna en það átti bara eft­ir að versna.

Hélt að hjálp­in væri kom­in

Skömmu seinna kom bát­ur frá dönsku strand­gæsl­unni og frá hon­um komu fjór­ir karl­ar og þar af tveir lög­reglu­menn á tuðru. „Þeir höfðu mest­ar áhyggj­ur af ol­íu­meng­un en ég benti þeim á að þeir þyrftu eng­ar áhyggj­ur að hafa af því . Ég hélt að þarna væri ég að fá hjálp en sá sem var í sam­bandi við mig frá gæslu­bátn­um gargaði á mig, ým­ist á dönsku eða ensku og hlustaði ekki á það þegar ég bað hann um að tala hæg­ar. Bað ég þá um túlk og að kom­ast í sam­band við ís­lenska sendi­ráðið. Það var ekki hlustað á það frek­ar en annað sem ég bað um. Meðal ann­ars bað ég um að fá mat og vatn en það eina sem þeir gerðu var að skikka mig til að skrifa und­ir skjal um að danska ríkið hefði yf­ir­tekið bát­inn.“

Að svo búnu fóru þeir í burtu og skildu Ólaf eft­ir á strandstað án nokk­urra skýr­inga og ekki sýndu þeir nokkra til­b­urði til að draga hann af strandstað. „Ég spurði hvort þeir ætluðu ekki að draga mig út og sýndi þeim að ég ætti spotta. Þá var mér bent á að tala við danska ríkið hvernig sem ég átti svo sem að hafa sam­band við það,“ sagði Ólaf­ur og hló. „Ég lét lög­reglu­menn­ina og stýri­mann­inn á skip­inu vita að ég væri bæði mat­ar- og vatns­laus en þeir stukku bara um borð í tuðruna og í gæslu­skipið og í land.“

Ömur­leg nótt

All­an laug­ar­dag­inn beið Ólaf­ur og nótt­in á eft­ir var öm­ur­leg. „Ég var bara í glugg­an­um þessa helgi,“ sagði Ólaf­ur og hló. „En mér leið mjög illa. Ég reyndi að sofna en bát­ur­inn valt stöðugt og sjór­inn lamdi á hon­um þannig að það var bara ekki hægt. Mér voru all­ar bjarg­ir bannaðar.“

 Þarna fór Ólaf­ur að velta fyr­ir sér ástæðunni fyr­ir þess­ari fram­komu. „Þeir voru svo rudda­leg­ir og skæt­ing­ur­inn var eins og þeir hefðu átt bréf í Glitni,“ sagði Ólaf­ur og enn átti fram­kom­an eft­ir að versna og verða óskilj­an­legri.

 Á sunnu­deg­in­um sá Ólaf­ur merki þess að flóðhæð væri að aukast, ræsti vél­ina og fór að mjaka bátn­um fram og aft­ur. Eft­ir fjóra tíma var hann laus. „Mín fyrsta hugs­un var að kom­ast út á frí­an sjó en eft­ir tíu mín­út­ur er hringt í mig og á rudda­leg­an hátt er ég spurður að því hvað ég sé að gera á bát sem sé í eigu danska rík­is­ins. Gekk sá sem hringdi svo langt að heimta að ég strandaði bátn­um aft­ur. Ég neitaði að sjálf­sögðu og setti stefn­una á höfn­ina. Þá kom lóðsbát­ur æðandi og stökk einn úr hon­um yfir til mín. Þá fyrst var ég í hættu. Hann tók við stjórn­inni og þjösnaðist þannig á vél­inni að ég hélt að hún myndi springa og hann endaði á að keyra á bryggj­una af slíku afli að stefn­isper­an skemmd­ist.“

Það gekk loks al­veg yfir Ólaf þegar dansk­ir heimtuðu borg­un fyr­ir en þá benti hann þeim á að form­lega væri bát­ur­inn eign danska rík­is­ins. Á bryggj­unni biðu tveir lög­reglu­menn og þeir voru fyrstu Dan­irn­ir sem sýndu hon­um bæri­lega kurt­eisi. Voru þeir m.a. gáttaðir á að Ólaf­ur skildi ekki hafa fengið mat því ósk um það hafði verið komið á fram­færi. „Þeir gáfu mér köku og hálfa vatns­flösku sem var það fyrsta sem ég hafði fengið síðan á föstu­deg­in­um. Um kvöldið fór ég á veit­ingastað en ástandið var þannig að ég kom engu niður.“

Laus allra mála?

Á mánu­deg­in­um hafði Ólaf­ur í ýmsu að snú­ast. Maður frá hinu op­in­bera kom og tók út bát­inn og tekið var viðtal við hann af staðarblaðinu í Rand­nes. Einnig kom bréf frá ís­lensk­um stjórn­völd­um um að bát­ur­inn heyrði und­ir ís­lenska lög. Þar með var hann laus allra mála. „En þar sem ég stóð á léttu bryggju­spjalli við tvo karla sé ég hvar lóðsbát­ur­inn fer á fullri ferð út úr höfn­inni. Seinna frétti ég að hann hefði farið að hirða upp tvo menn sem höfðu lent í sjón­um þegar þeir voru að skipta um per­ur í bauj­um. Þar var kom­in skýr­ing á strand­inu en ég var ekk­ert lát­inn vita af því en menn­irn­ir náðust heil­ir á húfi. “

Eft­ir nokk­urt papp­írsþref var bát­ur­inn aft­ur kom­inn und­ir ís­lenska lög­sögu og frels­inu feg­inn fékk Ólaf­ur leyfi til að sigla á brott. Á þriðju­deg­in­um forðaði Ólaf­ur sér frá Rand­nes. Fór hann til Ska­gen þar sem gert var við bát­inn og hann hvíldi sig í þrjá daga áður en hann hélt til Nor­egs.

 „Ég gerði mér ekki grein fyr­ir því fyrr en á þriðju­deg­in­um hvað ég var illa far­inn. Þá var ég kom­inn inn á gisti­heim­ili í Ska­gen. Þegar ég skolaði fram­an sá ég sjálf­an mig varla í spegl­in­um svo mikið var saltið sem skolaðist af mér. Líka drakk ég ein­hver ósköp af vatni án þess að þurfa á skila því af mér.“

Þegar Morg­un­blaðið ræddi við hann sím­leiðis sagði hann kank­vís að kannski væri viss­ara að upp­lýsa ekki hvar hann væri. „Maður veit aldrei hverju Dan­irn­ir taka upp á. Ann­ars er mér ekki illa við þá og ég hef ekk­ert gert þeim. En hef­ur ekki eitt­hvað klikkað þegar þeim finnst ekki einu sinni taka því að bjarga okk­ur Íslend­ing­um úr sjáv­ar­háska? Ég er með til­lögu um að hann nafni minn veiti strand­gæsl­unni í Rand­nes Fálka­orðuna. Það mætti henda henni um borð í Vædd­eren við tæki­færi. En án gríns, ég get ómögu­lega skilið þessa fram­komu,“ sagði Ólaf­ur Harðar­son að end­ingu.


„Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég …
„Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég var með ís­lenska fán­ann uppi að flest­ar trill­urn­ar sigldu fram hjá,“ seg­ir Ólaf­ur Harðar­son um danska starfs­bræður sem sigldu fram­hjá þar sem hann sat strand.
Varðskipsmenn í gúmmíbáti.
Varðskips­menn í gúmmíbáti.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert