„Það stingur okkur verulega að fólk megi ekki vera í vanskilum þegar það óskar eftir frystingu íbúðalána,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. Jóhannes segir því eina ráðið nú að samþykkja lög um greiðsluaðlögun fyrir fólk í fjárhagskröggum sem allra fyrst. Hann segir frumvarpið tilbúið og undrast að það fari ekki fyrir þingið. „Lögin eru eina bjargræði þess fólks sem er með lán í óskilum,“ segir hann. Neytendasamtökin áttu fulltrúa í nefnd um frumvarpið. „Stjórnarflokkarnir eru enn að velta þessu á milli sín en ég segi að þörfin sé svo mikil að það sé ekki tími til að velta þessu fyrir sér öllu lengur: Við verðum að fá þessi lög.“
Engar upplýsingar fengust um stöðu málsins í viðskiptaráðinu og bent var á að frumvarpið væri nú í dómsmálaráðuneytinu. Þar fengust heldur engin svör.