Ríkissaksóknari hefur samkvæmt heimildum mbl.is úrskurðað að götuskráð fjórhjól, sem skráð eru sem bifhjól, megi nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum en eingöngu þannig að farið sé um vegi eða merkta vegaslóða. Gilda því sömu reglur um götuskráð fjórhjól og t.d. um jeppa til þessara nota.
Sýslumaðurinn í Borgarnesi sendi fyrirspurn til ríkissaksóknara 11. nóvember s.l. til að fá úr því skorið hvaða farartæki megi nota þegar farið er til fuglaveiða á landi. Uppi hefur verið ágreiningur eða óvissa um hvort nota megi götuskráð fjórhjól, sem heitir bifhjól á ökutækjaskrá, til að fara á veiðar á fuglum, t.d. rjúpum, líkt og um jeppa eða bíl væri að ræða.
Í lögum um veiðar á fuglum og villtum spendýrum (64/1994) með síðari breytingum og reglugerð um fuglaveiðar frá 2005 segir m.a.: „Vélknúin farartæki á landi, önnur en vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki, má nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum.“ Í ljósi þess að umferðarstofa heimilaði götuskráningu fjórhjóla árið 2006 og kallaði þau bifhjól lék vafi á hvort nota mætti þessi farartæki, því fyrrnefnd lög bönnuðu ekki notun bifhjóla til þess að flytja veiðimenn þótt þau bönnuðu vélsleða og fjórhjól. Þá kom götuskráning fjórhjóla sem bifhjóla til síðar en lögin sem bönnuðu notkun þeirra til að flytja veiðimenn.