Óhætt að skjóta hvítabirni?

Sérfræðingahópur sem umhverfisráðherra skipaði kemst að þeirri niðurstöðu að engin stofnstærðarrök hnígi að því að ekki beri að skjóta hvítabirni sem ber á land þegar nauðsyn krefji. Niðurstaðan vekur athygli í ljósi umræðunnar um að birnirnir séu í útrýmingarhættu vegna loftslagsbreytinga, þar sem bráðnunin ógni heimkynnum þeirra, ísbreiðum norðursins.

Er skemmst að minnast þess að Novator, fjárfestingarfélag í eigu Björgólfs Thors Guðmundssonar, bauðst til að kosta björgun hvítabjarnar sem gekk á land í Skagafirði í júníbyrjun.

Eftir að birnan var felld sagðist Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra döpur yfir því hvernig fór fyrir dýrinu. „Allt sem hægt var að gera til að bjarga dýrinu var reynt. Allt þurfti að ganga upp og auk þess þurftum við að vera heppin. Því miður vorum við ekki nógu heppin.“

Þórunn skipaði síðan starfshóp sem fór yfir aðgerðirnar en honum var jafnframt ætlað að móta áætlun sem beitt yrði ef fleiri birnir gengu á land í framtíðinni.

„Ef tekst að tryggja vettvang og aðstæður eru hentugar þá er það mín skoðun að það eigi að reyna að fanga hvítabirni sem hingað koma lifandi. Það verður þó alltaf að meta hvert tilfelli fyrir sig. Það er líka mín skoðun að við verðum að eiga réttu tækin hér á landi og kunnáttu við að nota þau. Það verður hluti af vinnu starfshópsins að móta tillögur um slíkt,“ sagði Þórunn um afstöðu sína þá.

Niðurstöður hópsins setja spurningamerki við hvort bjarga beri hvítabjörnum í framtíðinni. 

„Hvítabirnir eru á svonefndum rauða lista IUCN (alþjóða náttúruverndarsamtökin) yfir dýr í yfirvofandi hættu (e: vulnerable) og hafa nýlega verið skráð sem ógnað (e: threatened) í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þrátt fyrir þetta styður hvítabjarnaráð IUCN (International Union for Concervation of Nature) sjálfbæra nýtingu á öllum 19 stofnum hvítabjarna eins og t.d. á Grænlandi. Um 800 dýr eru felld árlega og helmingur þeirra í Kanada (1990-2000 var árleg meðalveiði í Kanada 462 dýr, þ.a. 67 af sportveiðimönnum; Freeman & Wenzel 2006). Árlegur veiðikvóti dýra úr stofni hvítabjarna á Austur Grænlandi er 50-54 dýr fyrir árin 2007-2009 en nýlega juku grænlensk yfirvöld veiðikvóta fyrir árið 2008 um 10 dýr (E.W. Born, tölvupóstur til Hjalta J. Guðmundssonar, dags. 2. september 2008).“

„Niðurstöður sérfræðinga sem starfshópurinn leitaði til var mjög samhljóma. Eins og fram hefur komið styður Hvítabjarnaráð IUCN sjálfbæra nýtingu á öllum stofnum hvítabjarna og gerir því ekki athugasemdir við að dýrin sem komu hingað til lands hafi verið felld.“

„Síðast en ekki síst, að eins og staðan er árið 2008 eru engin haldbær stofnstærðarrök fyrir björgun einstakra hvítabjarna sem koma til Íslands. Hvítabirnir eru nýttir með sjálfbærum hætti við Grænland og í Kanada þ.e. veiddir af innfæddum, en þau dýr sem hingað koma eru líkast til úr Austur-grænlenska stofninum. Einnig má benda á að ástand hvítabjarna sem koma til landsins virðist vera nokkuð slæmt en skal skoðast í ljósi þess að þekkt er hjá þessum dýrum að vera fæðulítil og lifa á fituforða svo mánuðum skipti.“

„Það var álit vísindamanna á sviði hvítabjarnarrannsókna að engin stofnstærðarrök séu fyrir björgun hvítabjarna sem villast til Íslands. Í Austur-grænlenska stofninum eru að lágmarki 2000 dýr og telur Christian Sonne, helsti sérfræðingur Dana um hvítabirni á Grænlandi, að það skipti engu máli fyrir stofninn þótt nokkur dýr væru felld hér á landi. Undir þetta tekur IUCN hvítabjarnaráðið eins og fram hefur komið hér að framan enda er gefinn út árlegur veiðikvóti á hvítabirni við Austur-Grænland.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert