Birkir Jón sækist eftir varaformannsembættinu

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að bjóða sig fram í embætti varaformanns flokksins á komandi flokksþingi. Segist hann hafa fengið margar áskoranir um að sækjast eftir forystuhlutverki í Framsóknarflokknum á næsta flokksþingi sem haldið verður í janúar 2009.
 
„Að undanförnu hef ég fengið margar áskoranir um að sækjast eftir forystuhlutverki í Framsóknarflokknum á næsta flokksþingi sem haldið verður í janúar 2009. Mér þykir vænt um þá hvatningu og stuðninginn sem í henni felst. Jafnframt tel ég að ungt fólk eigi að ganga fram fyrir skjöldu eins og ástatt er því að næstu kosningar munu fremur en áður snúast um lausnir og hvert beri að stefna til framtíðar. Á þessum tímamótum á Framsóknarflokkurinn að standa undir nafni og sækja fram, vera skýr valkostur í íslenskum stjórnmálum. Ég treysti mér til slíkra verka og vil leggja mitt af mörkum til að sameina framsóknarmenn um nauðsynleg úrlausnarefni og vinna í samhentri forystu fyrir flokkinn.
 
Að vel ígrunduðu máli er það niðurstaða mín að bjóða mig fram til varaformanns fyrir Framsóknarflokkinn á komandi flokksþingi.
 
Ég er 29 ára gamall, borinn og barnfæddur Siglfirðingur. Ég hef setið á Alþingi sl. 5 ár og verið treyst þar til ábyrgðarmikilla starfa. Ég hef reynslu af þátttöku í bæði stjórnarmeirihluta og því mikilvæga hlutverki að veita aðhald í stjórnarandstöðu," að því er segir í fréttatilkynningu frá Birki Jóni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka