„Þetta er þjóðin“

Húsfyllir er í Háskólabíói.
Húsfyllir er í Háskólabíói. Morgunblaðið/ Golli

Fjöldi spurninga voru bornar upp við ráðherra á borgarafundinum í Háskólabíói.

„Þetta er þjóðin og þetta er gjáin á milli okkar. Svona eru þið komin langt frá þjóðinni,“ sagði einn spyrjenda úti í sal og spurði því næst utanríkisráðherra hvort betra væri að afnema verðtrygginguna eða að hún og fjöldi annarra viðstaddra skiluðu inn lyklunum af heimilum sínum og flyttu úr landi.

Hvað þarf til að þið skiljið að við viljum að þið víkið sagði annar. Hvers vegna voru eigur útrásarvíkinganna ekki frystar spurði sá þriðji.

Forsætisráðherra sagði að rangt væri að kjósa nú. Ekkert lán komi frá Norðurlöndunum fyrr en fyrsta áfanga í björgunarleiðangrinum verði lokið. Ef stefnt verði á kosningar nú um miðjan vetur fari þetta allt í vaskinn.

Utanríkisráðherra segir hægt að koma til móts við fólk án þess að aftengja verðtryggingu  og án þess að fólk þurfi að skila inn lyklunum. Hún skilji enn fremur vel að einhverjir vilji ríkisstjórnina burt en hún sé ekki viss um að það sé meiri hluti þjóðarinnar.

Menntamálaráðherra segir að það þurfi að upplýsa fólk betur og tala við það, það séu mistök stjórnarinnar á undanförnum vikum. Ekki sé hins vegar hægt að heimila áheyrnarfulltrúa úr röðum almennings í nefndum líkt og ein tillaga úr sal hljómaði upp á.

Geir Haarde forsætisráðherra var spurður hvort hann væri tilbúinn að opna prófkjör Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu kosningar, öðrum en flokksmönnum. Svar Geirs var stutt og skýrt: „Já.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagðist skulda starfsmanni Merrill Lynch fjárfestingarbankans afsökunarbeiðni, fyrir ummæli í júlí um að hann þyrfti að endurmennta sig.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði, aðspurð hvaða ábyrgð hún bæri, að hún hefði átt að kalla hærra eftir uppbyggingu á vörnum fyrir íslenska fjármálakerfið. Þar lægi líklega ábyrgð hennar að mestu.

Árni M. Mathiesen sagði, spurður hví eignir auðmanna hefðu ekki þegar verið frystar, að stjórnvöld vildu ekki víkja frá reglum réttarríkisins. Með því féllu þau í sömu gryfju og Bretar, þegar þeir frystu eignir Landsbankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka