Mikill áhugi á íslenskum orkufyrirtækjum

Merki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Merki Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Á orkuráðstefnunni GEO2 í Bilbao á Spáni í nóvember óskuðu fjórtán erlend fyrirtæki og rannsóknaraðilar eftir fundi með fulltrúa íslenskra orkufyrirtækja frá Enterprise Europe Network á Íslandi þar sem rætt var um möguleika á samstarfi.

Kristín Halldórsdóttir verkefnisstjóri Enterprise Europe Network (EEN) sótti fyrirtækjastefnumótið fyrir hönd níu íslenskra fyrirtækja, að því er segir í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þar segir að á fyrirtækjastefnumóti EEN hafi verið lögð áhersla á sjálfbæra þróun, orku og umhverfi og að fundirnir hafi verið alls vel á annað hundrað. Impra á Nýsköpunarmiðstöð Íslands leiðir starfsemi EEN á Íslandi en samstarfsaðilar eru Rannís og Útflutningsráð.

 „Það var gríðarlegur áhugi á íslensku orkufyrirtækjunum. Ég vonast til þess að út úr þessu komi samningar við erlenda aðila um að yfirfæra okkar tækni og þekkingu í orkugeiranum til annarra landa en það felur í sér mikil viðskiptatækifæri,“ segir Kristín Halldórsdóttir í tilkynningunni.

Enterprise Europe Network er einn stærsti vettvangur tækni- og viðskiptasamstarfs í Evrópu en netverkið var formlega opnað á Íslandi í október 2008. Með því opnuðust nýjar gáttir fyrir íslensk fyrirtæki sem vantar aðstoð við að stunda viðskipti og rannsóknir í Evrópu.

Íslensk fyrirtæki hafa nú aðgang að um 550 samstarfsaðilum netverksins í yfir 40 löndum. Boðið er upp á fjölbreytta þjónustu, m.a. leit að samstarfsaðilum í gegnum gagnagrunna fyrir tækni- og viðskiptasamstarf og veittur er aðgangur að upplýsingum um Evrópuverkefni og styrkjamöguleika. Einnig er hægt að fá margvíslegar upplýsingar t.d. um  tolla og tollkvóta, skatta og ýmsar kröfur sem gerðar eru til vöru sem sett er á markað í Evrópu.

Í október var opnaður vefur EEN á Ísland á slóðinni www.een.is.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka