Vantar viðurlög gagnvart stjórnvöldum

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umboðsmaður Alþing­is hef­ur ít­rekað ábend­ing­ar um að ástæða kunni að vera til þess að Alþingi setji í lög ákvæði um viður­lög gagn­vart stjórn­völd­um, t.d. um bóta­greiðslur, þegar þau fylgja ekki rétt­um málsmeðferðarregl­um stjórn­sýslu­rétt­ar­ins við úr­lausn á mál­um borg­ar­anna. Umboðsmaður seg­ir laga­grund­völl fyr­ir miska­bót­um sjaldn­ast fyr­ir hendi þegar stjórn­vald fylg­ir ekki lög­um. Það eigi sér­stak­lega við þegar um­sækj­end­ur um op­in­ber störf eiga í hlut.

Þessi ít­rek­un er sett fram í ný­legu áliti umboðsmanns vegna kvört­un­ar konu sem sótti um tvö störf hjá rík­is­stofn­un en fékk ekki. Kon­an taldi að fram­kvæmda­stjóri rík­is­stofn­un­ar­inn­ar hefði ýtt um­sókn­um sín­um til hliðar og byggt ákvörðun sína um ráðningu í störf­in á sögu­sögn­um og henti­stefnu í stað þess að leita eft­ir upp­lýs­ing­um um hana hjá þeim meðmæl­end­um sem hún benti á.

Það er álit umboðsmanns að ann­mark­ar hafi verið á málsmeðferð rík­is­stofn­un­ar­inn­ar. Hlutaðeig­andi stjórn­vald hafi ekki fylgt til­tekn­um ákvæðum stjórn­sýslu­laga og upp­lýs­ingalaga við meðferð á máli um­sækj­and­ans.

Það hagg­ar hins veg­ar ekki, að mati umboðsmanns, gildi ráðning­anna og þar með tel­ur umboðsmaður ekki til­efni til þess að beina til­mæl­um til rík­is­stofn­un­ar­inn­ar um að taka málið til meðferðar að nýju. Eina úrræði umboðsmanns er því að beina til­mæl­um til stjórn­valds­ins um að fylgja bet­ur um­rædd­um laga­regl­um fram­veg­is.

„Ég fæ því iðulega þá spurn­ingu frá þeim sem í hlut á hvort stjórn­valdið sé þá laust allra mála og það skipti í raun engu máli þótt það hafi ekki fylgt lög­um við meðferð á máli hans. Ég get að vísu bent viðkom­andi á að hann geti leitað til dóm­stóla og sett fram kröfu um bæt­ur. Raun­in er hins veg­ar sú að í fæst­um til­vik­um, sér­stak­lega þegar um­sækj­end­ur um op­in­ber störf eiga í hlut, get­ur viðkom­andi sýnt fram á fjár­hags­legt tjón vegna þeirra ann­marka sem voru á meðferð stjórn­valds­ins á máli hans. Laga­grund­völl­ur fyr­ir miska­bót­um er sjaldn­ast fyr­ir hendi,“ seg­ir í áliti umboðsmanns.

Umboðsmaður seg­ist hafa valið að geta þess­ara sjón­ar­miða þegar hann lýk­ur um­fjöll­un um þetta til­tekna mál. Þá rifjar umboðsmaður upp að hann hef­ur áður hreyft því að ástæða kunni að vera til þess að Alþingi setji í lög ákvæði um viður­lög gagn­vart stjórn­völd­um, t.d. um bóta­greiðslur, þegar þau fylgja ekki rétt­um málsmeðferðarregl­um stjórn­sýslu­rétt­ar­ins við úr­lausn á mál­um borg­ar­anna.

Slíkt væri einnig liður í því að auka aðhald með því að stjórn­sýsl­an fylgi þeim lög­um sem Alþingi hef­ur sett um störf henn­ar.

Heimasíða umboðsmanns Alþing­is

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert