Íslendingar einblína á vandann

mbl.is

 „Á kínversku er orðið krísa skrifað með tveimur táknum. Annað táknið merkir tækifæri meðan hitt táknið þýðir háski. Íslenska þjóðin þarf að gera upp við sig hvort hún vill sækjast eftir tækifærunum sem felast í núverandi krísuástandi eða feta braut háskans,“ segir Claus Møller, stofnandi Time Manager International (TMI) og sérfræðingur í krísuráðgjöf, en hann er meðal frummælenda á fullveldisfundi Útflutningsráðs sem haldinn er í dag.

Møller er heimsfrægur ráðgjafi á sviði stjórnunar. Sem dæmi af verkefnum hans má nefna að á níunda áratugnum vann hann að endurreisn SAS með þeim árangri að flugfélagið var valið besta flugfélagið tíu ár í röð, árið 1992 vann hann við hópeflingu danska landsliðsins í fótbolta en Danir unnu óvænt Evrópumeistarakeppnina það ár og á árunum 1987-89 vann Møller að þjálfun sérfræðinga í Sovétríkjunum sálugu sem ætlað var að hjálpa til við að innleiða umbæturnar sem fólust í perestroiku Mikhaíls Gorbatsjovs. Það er því óhætt að segja að Møller hafi komið víða við á ferli sínum. Og nú býðst hann til þess að miðla af reynslu sinni til íslenskra ráðamanna þeim að kostnaðarlausu.

„Ég hef fylgst afar vel með þróun mála hér á Íslandi í fjölmiðlum undanfarið og það er alveg ljóst að þið eruð í mjög erfiðri stöðu. Það slær mig hins vegar í allri fjölmiðlaumfjölluninni um krísuna að fyrst og fremst virðist vera einblínt á vandamálin og hið neikvæða í stað þess að leita lausna. Þið þurfið sárlega á því að halda sem þjóð að þið getið þjappið ykkur saman til þess að vinna í sameiningu að lausn vandans. Raunar má líkja aðstæðum hér við stríðsástand, en þegar maður er í stríði er hins vegar nauðsynlegt að vita hver er óvinur manns. Mér virðist núna eins og að stríðið standi milli almennings og ríkisstjórnarinnar, sem er mjög bagalegt þar sem það mun aðeins leiða til meiri sundrungar hjá þjóðinni. Meðan öll orkan fer í að ræða hvort flýta eigi kosningum og stjórnarandstaðan eygir möguleika þess að komast að kjötkötlunum þá er verið að sóa tímanum þar sem ekki er byrjað á nauðsynlegri uppbyggingu,“ segir Møller og tekur fram að raunar sé forsenda þess að hægt sé að þjappa þjóðinni saman að hún eigi sér sterkan leiðtoga sem hún treysti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka