Fjórir fluttir á slysadeild eftir árekstur

Harður árekstur varð á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar um kl. 10:15. Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins voru fjórir fluttir á slysadeild. Þeir eru ekki taldir vera alvarlega slasaðir. Beita varð klippum til að ná einum hinna slösuðu úr fólksbifreið. Tafir hafa orðið á umferð.

Að sögn SHS rákust smárúta og fólksbifreið saman. Tveir úr hvorri bifreið voru fluttir á slysadeild. Alls voru fjórir sjúkrabílar sendir á staðinn auk tækjabíls.

Einn hinna slösuðu sat fastur í fólksbifreiðinni og varð að beita klippum til að ná honum út. 

Lögreglan er enn á staðnum auk rannsóknarnefndar umferðarslysa. Umferð hefur verið lokað um svæðið tímabundið.

Orsök umferðarslyssins liggja ekki fyrir að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert