Íhugar málsókn gegn Kastljósi

Reynir Traustason, ritstjóri DV
Reynir Traustason, ritstjóri DV mbl.is/Árni Sæberg

Reynir Traustason, ritstjóri DV segist íhuga málsókn gegn Ríkissjónvarpinu vegna upptöku af trúnaðarsamtali hans við undirmann sinn sem spiluð var í Kastljósi í kvöld. Reynir segist jafnframt munu meta eigin stöðu vegna málsins og ef hann meti það svo að hann skaði DV muni hann segja af sér ritstjórn.

„Þetta er upptaka þar sem ég er að tala við blaðamann okkar á milli, ég er að útskýra það sem hefur gengið á dagana á undan og það er aldrei ætlað til opinberrar birtingar,“ sagði Reynir í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. „Svo gerist það að sjónvarpið ákveður að taka þetta til opinberrar birtingar og það verður skoðað í framhaldinu. Ég lít á þetta sem siðblint athæfi, þarna er maður með segulbandstæki í vasanum. Hann er í vinnu hjá mér og við tölum um það í upphafi að þetta sé trúnaðarsamtal og hann fellst á það. Og hvers konar blaðamaður er það sem á trúnaðarsamtal og birtir það svo?“

Hann segist munu fara yfir málið með lögmönnum sínum á morgun og horfi sérstaklega til Kastljóssins, því framganga sjónvarpsins sé alvarlegri en „einhvers strákpjakks sem bregst trúnaði með þessum hætti.“

Ekki nóg í höndunum til að opinbera hótanirnar

Reynir samþykkir að málið veiki án vafa stöðu hans í ritstjórn DV en það horfi ekki svo við honum nú að hann telji rétt að segja af sér. „Ef ég met það svo að ég sé að skaða blaðið þá bara hætti ég, það er ekki flóknara en það. En hvert er mitt afbrot í málinu? Jú, það er tekið trúnaðarsamtal mitt við blaðamann þar sem ég er að lýsa því sem er búið að vera að gerast á blaðinu, þar sem við höfum verið að kljást við mjög volduga óvini. Og ég fresta birtingu fréttar sem er í sjálfu sér nauðaómerkileg, af því að búið var að birta hana annars staðar áður.

„Mistökin mín í málinu eru þau að láta truflast af einhverjum ótta við eitthvað ókomið, en þau eru svo auvirðileg af því að það eru engin vatnaskil eftir þessa frétt. Ég hefði kosið að það væri stærra mál sem dyndi á mér ef ég ætti að stefna til stórra styrjalda. En ég skil ekki enn þann dag í dag af hverju fjaðrafokið varð, ég næ ekki upp í það hvernig þetta mál gat komið svona við einhverja aðila með þeim hætti sem það gerði. Þannig að við erum inni í einhverju skrípamáli.“

Hann segist þó ekki vilja fara út í nánari smáatriði um með hvaða hætti staðið var að hótunum vegna fréttarinnar,  hann hafi einfaldlega ekki nógu mikið í höndunum til að standa undir því. „Ef ég gæti komið fram með þetta mál þá hefði ég löngu verið búinn að því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert