Meðal eigna í peningamarkaðssjóðum Landsbankans voru skuldabréf í bankanum sjálfum fyrir tæplega 14,7 milljarða króna. Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, segir ljóst að bankinn hafi með þessu lagað lausafjárstöðu sína.
Landsbankinn ákvað að upplýsa um samsetningu innlends peningamarkaðssjóðs dótturfélagsins Landsvaka, eins og Kaupþing hefur gert. Sjóðurinn samanstóð af 32,3 prósenta skuldabréfeign í Kaupþingi, 14,3 prósenta skuldabréfaeign í Landsbanka og 13,2 prósenta eign í Straumi. Sjóðurinn átti flest markaðsskuldabréfin í Baugi og námu þau 12,8% af sjóðnum. 8,4% sjóðsins voru í skuldabréfum Eimskips og 5,2% í Samson, eiganda bankans.
102 milljarðar voru í sjóðnum við slit á honum en innlán hans voru um 30 milljarðar af skuldabréfum fjármálafyrirtækjanna.
Þegar rýnt er í stöðu sjóðsins má sjá að bréfin í Kaupþingi, Landsbanka og Samson námu 51,8 prósentum. Stoðir eru í greiðslustöðvun og mikil óvissa um framtíð Exista og er hlutfall þeirra bréfa í sjóðnum 5,1%. Þá er staða Eimskips óljós og því erfitt að meta verðgildi bréfanna, sem voru 8,4% af sjóðnum.
Eftir standa bréf í Straumi, Sparisjóði Bolungarvíkur, Atorku, Eglu, Baugi, dótturfélagi þess Mosaic og Marel, eða um 34,6% en Atorka hefur verið afskráð í Kauphöllinni, verðgildi Straums hrunið á stuttum tíma og deilt er um stöðu Baugs.
Fjárfestingar sjóðsins voru í fullu samræmi við reglur hans og útboðsgögn segir Stefán H. Stefánsson, framkvæmdastjóri á eignastýringarsviði Landsbankans. Síðasti dagur Stefáns í bankanum er í dag en hann sagði upp á dögunum.
Hann segir að unnið hafi verið að því að draga úr áhættu sjóðanna. Innheimt hafi verið hjá þeim fyrirtækjum sem talin voru veikust og fleiri skuldabréf keypt af stærri bönkunum. „Sem svo olli langsamlegasta stærsta tjóninu og er bein afleiðing af neyðarlögunum.“
Stefán segir bankanum ekki skylt að veita upplýsingar og þó svo að það sé nú gert gefi þær ekki fulla mynd af stöðunni þar sem bankinn hafi veð fyrir eignum og það breyti stöðunni. „Við höfum til að mynda fullar tryggingar á bak við skuldbindingar Stoða. Það á við um fleiri tilvik.“