Hlýrra á Ísafirði en í Róm

Hlýtt og gott á Ísafirði milli jóla og nýárs.
Hlýtt og gott á Ísafirði milli jóla og nýárs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hið öfugsnúna veðurlag nú á milli jóla á nýárs hefur það í för með sér að hitastigið hér á landi verður afar sérkennilegt í samanburði við ýmsa staði sunnar í Evrópu, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á bloggsíðu sína, esv.blog.is.

Einar skrifar að í gær kl. 18 hafi þurft að fara alla leið suður til Barcelona til að finna hærra hitastig en var á Ísafirði, eða 11°. Ívið kaldara var í Róm, en svipaður hiti í Aþenu, en litlu hlýrra á Krít og Sikiley. Miklu kaldara var hins vegar í Mið-Evrópu. Frostið 1 stig í París og 9 stig í Ehrfurt í miðju Þýskalandi.

„Hver hefði trúað því að hitinn kæmist í 7,5°C norður á Jan Mayen á þessum árstíma? Slíkt er hins vegar raunin!“ skrifar Einar.

Á heimasíðu Veðurstofunnar kemur fram að spáð sé austankalda með éljum sunnanlands á Gamlársdag, en annars hægara og úrkomulítið. Frost víða 0-5 stig en frostlaust syðst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka