Íslensk kona myrt í Bandaríkjunum

Isol Lind Cotto
Isol Lind Cotto

Íslensk kona, Isol Lind Cotto, var aðfararnótt gamlársdags myrt af  eiginmanni sínum í bænum Marbletown í New York ríki í Bandaríkjunum. Eiginmaðurinn, William Cotto, skaut Isol til bana og framdi sjálfsvíg í kjölfarið. Isol var 49 ára gömul, að því er fram kemur á bandarískum fréttavefjum. Isol og William Cotto bjuggu ekki saman en hann hafði farið fram á skilnað árið 2005 en dregið beiðnina til baka árið 2006, samkvæmt frétt á vefnum Recordline.

Isol rak myndbandaleigu í Marbletown og William Cotto var á eftirlaunum en hann hætti í lögreglunni fyrr á árinu 2008 eftir tuttugu ára starf.  Cotto var handtekinn á þriðjudag vegna þess að hann réðst inn á heimili Isol en látinn laus gegn tryggingu daginn eftir. Jafnframt var sett nálgunarbann á hann gagnvart Isol og vopn í hans eigu gerð upptæk.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hafði Isol búið í Bandaríkjunum í um þrjátíu ár. Talið er að málið sé upplýst en ráðuneytið fylgist með gangi mála og er reiðubúið að veita aðstoð óski ættingjar hennar eftir því.

Víkurfréttir segja á vef sínum að Isol hafi verið ættuð úr Njarðvík og að hún hafi átt börn.

Frétt á vefnum Recordonline

William Cotto
William Cotto Frá lögreglunni í Ulster sýslu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka