Valdið er hjá ráðherranum

„Ég vísa þessu til föðurhúsanna. Það eru ýmis dæmi um að það hafi verið tekin ákvörðun um að bæta við kvóta og valdið er alveg ótvírætt í höndum sjávarútvegsráðherrans,„ segir Einar K. Guðfinnsson landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um gagnrýni Ólafs Karvels Pálssonar, fiskifræðings hjá Hafró.

Ólafur sagðist í samtali við RÚV  álykta sem svo að ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að auka þorskveiðiheimildir um 30.000 tonn og að aflamark næsta árs verði ekki undir 160.000 tonnum, væri andstæð lögum.

Ólafur Karvel vísaði í samtali við RÚV til laga um stjórn fiskveiða, þar sem segir að sjávarútvegsráðherra skuli að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla sem veiða má á ákveðnu tímabili. Ráðherra hafi hinsvegar ekki fengið tillögur frá Hafrannsóknastofnunni áður en hann tók ákvörðun sína.

„Það er gert ráð fyrir því í lögunum að ég fái álit Hafrannsóknastofnunarinnar og það álit liggur auðvitað fyrir frá í fyrra við mat á stöðu fiskistofnanna. Þá tók ég þá ákvörðun að fylgja nákvæmlega aflareglunni og tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar en endurskoðaði það núna í ljósi aðstæðna,“ segir sjávarútvegsráðherra.

Í þriðju grein laga um stjórn fiskveiða segir að sjávarútvegsráðherra skuli ákveða útgefinn kvóta, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar. Í sömu grein segir ennfremur að ráðherra sé heimilt innan fiskveiðiársins að auka eða minnka leyfðan heildarafla einstakra botnfisktegunda.

Ólafur Karvel Pálsson, fiskifræðingur, gagnrýndi sjávarútvegsráðherra harðlega í samtali við RÚV. Hann sagði að ekki stæði steinn yfir steini í nýtingarstefnu stjórnmálamanna, hún væri gjörsamlega ómarktæk. Þeim væri ekki treystandi fyrir málaflokknum og spurning hvort ekki væri rétt að taka málaflokkinn frá stjórnmálamönnum. Að minnsta kosti verði að takmarka þeirra vald verulega.

„Þetta er auðvitað fjarri lagi. Ég hef sýnt það í mínum ákvörðunum að ég hef tekið mjög mikið tillit til sjónarmiða fiskifræðinga og það er auðvitað augljóst mál að þetta er ákvörðun af því tagi að hún getur ekki verið í annarra höndum en stjórnmálamanna, sem bera á henni hina endanlegu pólitísku ábyrgð. En ég er hins vegar sammála því að auðvitað eigum við að taka mjög mikið tillit til sjónarmiða fiskifræðinga og ég hef einmitt legið undir ámæli fyrir að hafa gengið of langt í þeim efnum,“ segir Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert