Krossnefir eru nýir landnemar í fuglaríki Íslands, að því er fram kemur á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Nú hefur sést til krossnefa í tilhugalífi og varp þeirra verið staðfest hér á landi.
Krossnefur eru finkutegund sem lifir í skógum á norðurhveli jarðar. Karlfuglinn er fagurrauður og kvenfuglinn gullleitur. Einkenni krossnefsins er tilkomumikið nef þar sem skoltarnir ganga á víxl og af því dregur tegundin nafn sitt.
„Krossnefir hafa mjög lengi verið þekktir sem gestir á Íslandi, sum ár koma þeir hingað í stórum hópum og þetta flakk helgast væntanlega af ástandi í heimkynnum þeirra í Norður-Evrópu. Með aukinni ræktun barrtrjáa hér á Íslandi hafa skapast skilyrði fyrir þennan fugl. Vitað var um eina varptilraun 1994 austur í Fljótshlíð. Þá urpu fuglarnir í desember en varpið misfórst.
Krossnefir hafa verið fastagestir á Íslandi nokkur síðustu ár og
sést hópum saman 2008. Síðsumars 2008 var ljóst að mikið fræfall yrði
af sitkagreni nú í vetur. Þetta hafa krossnefirnir nýtt sér. Ómar
Runólfsson, fuglaáhugamaður, staðfesti varp þeirra í skógarteigunum
austur við Sog þann 25. október 2008; hann sá fullorðna fugla mata 2-3
nýfleyga unga. Nýjustu fréttir herma að nú á Þorra séu krossnefspör
tugum saman í tilhugalífi og að undirbúa varp bæði á Suðurlandi og í
nágrenni Reykjavíkur! Það verður spennandi að fylgjast með landnámi
þessa sérkennilega fugls,“ segir á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar.