Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hvatti þjóðina, í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld, til að sýna samstöðu og samhug við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu.
„Við þurfum að þétta öryggisnet samfélagsins. Við þurfum öll
að vera vakandi, Verkalýðssamtökin og ríkisvald, sveitarfélög, kirkjan, Rauði
krossinn og aðrar samfélagsstofnanir og mannúðarsamtök sem oft vinna kraftaverk
í þessu tilliti," sagði Jóhanna þegar hún flutti Alþingi skýrslu um stefnu ríkisstjórnarinnar.
Hún sagði, að Íslendingar þurfi líka að bretta upp ermarnar og hefja uppbygginu nýs velferðarsamfélags. „Við þurfum að gefa nýjum atvinnutækifærum gaum, skapa jarðveg fyrir sprotafyrirtæki og gefa starfandi fyrirtækjum olnbogarými til að auka hraðann og vinnuaflsþörfina. Ég bið fyrirtækin og atvinnulífið allt að leggjast á árarnar með okkur – og sýna því skilning að við þurfum að byrja margt upp á nýtt.
Við þurfum áræðni í stað ótta. Við verðum að ráðast í verkefni og framkvæmdir sem hafa beðið á meðan góðærið stóð sem hæst. Allir sem geta, eiga að leggja sitt af mörkum því aðeins þannig vinnum við okkur hratt út úr vandanum.
Segja má að ríkisstjórnin byggi á samkomulagi um nýja byrjun – nýtt gildismat. Það hefur orðið viðhorfsbreyting meðal almennings í landinu. Það hefur myndast samstaða um önnur gildi en þau sem mest hafa verið í hávegum höfð á undanförnum árum. Það hefur myndast samstaða um samábyrgð fólks, við erum öll á sama báti.
Sú ríkisstjórn sem nú er að hefja sína fyrstu vinnuviku er frjálslynd velferðarstjórn sem starfar á grundvelli víðtæks samráðs. Stjórn sem ætlar að endurreisa, stjórn sem ætlar að koma á stöðugleika, stjórn sem ætlar að verja grunnþjónustu velferðarkerfis okkar," sagði Jóhanna og bætti við þetta væri og ætti að verða ríkisstjórn fólksins í landinu.
Fram kom hjá Jóhönnu, að ríkisstjórnin ætli að grípa til markvissra aðgerða til að bregðast við fjárhagsvanda heimila í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Sett verði á fót velferðarvakt margra aðila sem muni fylgjast með afleiðingum bankahrunsins og gera tillögur um aðgerðir. „Hér verðum við að draga lærdóm af bitri reynslu Finna," sagði Jóhanna.