Dorrit segist lengi hafa varað við fjármálahruni

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson.
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Eggert

Í viðtali, sem birtist í marshefti tímaritsins Condé Nast Portfolio, er haft eftir Dorrit Mousssaieff, forsetafrú, að hún hafi lengi varað við því að íslenska fjármálakerfið kunni að hrynja. „Ég sagði þetta í hvert skipti sem banki var opnaður á undanförnum árum," segir Dorrit.

Joshua Hammer, blaðamaður Portfolio, segir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hafi ítrekað sagt við konu sína að hún gæti ekki viðhaft þessi og ýmis önnur ummæli, sem birtast í viðtalinu.

Blaðamaðurinn segir, að tveimur dögum eftir að viðtalið var tekið á Bessastöðum í desember hafi Dorrit hringt í hann og sagt að hann geti notað allt sem hún hafi sagt þótt eiginmaður hennar hafi viljað að það væri utan viðtalsins.

Í viðtalinu er m.a. fjallað um kvöldverð, sem blaðamaðurinn átti með forsetahjónunum á Bessastöðum.  Þar er haft eftir Ólafi Ragnari, að Íslendingar muni án efa upplifa erfiða tíma á næstu árum og líklega muni þúsundir manna missa íbúðir sínar.

Þessu er Dorrit ósammála. „Fyrirgefðu, elskan, ég er ekki sammála þér. Enginn mun missa hús sín. Hvernig er hægt að missa hús í landi þar sem það eru tvisvar sinnum fleiri hús en manneskjur."

„Dorrit, þú getur ekki sagt þetta," segir Ólafur Ragnar.

„En þeir geta ekki selt þessi hús... Ég er viss um, að það verða engir Íslendingar heimilislausir. Það er algerlega ljóst."

„Þú getur ekki sagt þetta. Þú getur bara ekki sagt þetta," segir Ólafur Ragnar. Í blaðinu eru orðaskipti forsetahjónanna síðan rakin áfram.

Viðtalið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka