Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir þjóðina búa við hæstu vexti í vestrænum heimi, þúsundir séu atvinnulausar og gengið sé hrunið. Hann sagði skelfilegar fréttir fyrir fólkið í landinu ef það ætti að mæta þessu ástandi með skattahækkunum eins og margt benti til.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði athyglisvert að heyra þingmanninn lýsa afleiðingum af sautján ára valdatíð sjálfstæðisflokksins. Hún sagði jafnframt að skattar yrðu ekki hækkaðir á þessu ári en útilokaði ekki að það þyrfti bæði að ráðast í skattahækkanir og niðurskurð til að standast áætlun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins fram til ársins 2012. Það sé hinsvegar fjarstæða að það standi til að hækka skatta á fólkið í landinu á næstu mánuðum.
Sigurður Kári Kristjánsson segir ekki þýða neitt að reyna að klína ástandi efnahagsmála á Sjálfstæðisflokkinn. Hann spurði hvort Jóhanna Sigurðardóttir hefði ekki sjálf verið í síðustu ríkisstjórn. Það veki hinsvegar furðu að ríkisstjórn sem þykist ætla að slá skjaldborg um fólkið í landinu ætlaði í hinu orðinu að taka hluta af tekjum þess og eyða þeim.
Jóhanna Sigurðardóttir svaraði því til að yrði skattar hækkaðir síðar myndi núverandi ríkisstjórn ekki láta þær koma eingöngu við láglauna- og millitekjufólk og vernda auðmenn eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefði jafnan gert.