Vítahringur í peningamálum

Jón Daníelsson.
Jón Daníelsson.

Í skýrslu Jóns Daníelssonar prófessors við London School of Economics og Gylfa Zoega, prófessors við Háskóla Íslands, lýsa þeir samspili ríkisfjármála og vaxtamunarviðskipta á Íslandi á síðustu árum.

Vaxtamunarviðskipti eru það þegar fjárfestar sem fá fé að láni í lágvaxtalöndum en festa það, t.d. með því að kaupa skuldabréf, í hávaxtalöndum eins og Íslandi, og hirða svo vaxtamuninn. Afurð þessa eru m.a. svokölluð jöklabréf. Hagfræðingarnir eru í raun að lýsa vítahring hárra vaxta, vaxtamunarviðskipta og erlendrar lántöku einkageirans, sem stjórnvöld voru í síðustu árin.

Hinir háu stýrivextir á Íslandi segja þeir Jón og Gylfi að hafi hvatt innlend fyrirtæki og heimili til þess að taka lán í erlendri mynt (á lágum vöxtum). Jafnframt hafi þeir laðað að erlenda aðila sem lögðu stund á vaxtamunarviðskipti. Þetta hafi verið sérstaklega freistandi fyrir þá, þar sem þeir vissu að fyrritækin og heimilin voru mjög skuld sett í erlendri mynt. Sú skuldastaða gerði Seðlabankanum mjög erfitt um vik að lækka vexti, vegna ótta við að gengisveiking myndi hækka skuldir einkaaðila og auka verðbólgu.

„Afleiðingin var mikið innflæði erlends gjaldeyris og gengisstyrking sem villti Íslendingum sýn svo þeir töldu sig auðugri en þeir voru í raun og verðlaunaði þá sem stunduðu vaxtamunarviðskipti. Innflæði gjaldeyris örvaði jafnframt hagvöxt og verðhækkun húsnæðis, sem leiddi svo aftur til þess að Seðlabankinn sá sig knúinn til að hækka vexti frekar sem sannfærði fjárfesta um að vaxtamunarviðskipti yrðu áfram arðsöm. Heildarupphæð innflæðis fjármagns sem fylgdi í kjölfarið er ekki þekkt en virðist hafa numið meira en 50% af vergri landsframleiðslu. Það verður ekki séð hvers vegna þetta vakti ekki áhyggjur yfirvalda,“ stendur í skýrslunni.

Í ofanálag hafi ríkisfjármálin á síðustu árum aukið á þensluna, enda hafi ríkisstjórnin lækkað skatta og aukið útgjöld þrátt fyrir verðbólguþrýsting og viðskiptahalla við útlönd. „Þessi blanda af peninga- og ríkisfjármálastefnu gaf fjárfestum frekari ástæðu til að vænta hárra vaxta og sterks gengis í framtíðinni, sem réttlætti þá frekari vaxtamunarviðskipti og erlendar lántökur til að fjármagna fjárfestingu og neyslu.“

Gylfi Zoega
Gylfi Zoega
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert