Íslendingar á leið til Kanada

Stórt samfélag Íslendinga er í Gimli.
Stórt samfélag Íslendinga er í Gimli. Árni Sæberg

Íslenskur bakari, Birgir Róbertsson, gæti orðið meðal þeirra fyrstu sem flytjast vestur um haf til Gimli í Manitoba í Kanada, vegna kreppunnar sem skall á landanum í haust. Hann vonast eftir „nýrri byrjun" í bænum, sem laðaði til sín fjölda Íslendinga í svipuðum sporum fyrir meira en öld.

Kanadíska blaðið Winnipeg Free Press birtir viðtal við Birgi á vefsíðu sinni en hann kom til Gimli í síðustu viku eftir að hafa verið í tölvupóstsambandi við Íslendinginn Jón Axelsson, sem giftur er bæjarstjóra Gimlis, Tammy Axelsson.

Birgir segist hafa valið Gimli vegna áralangra tengsla staðarins við Íslendinga. Hann hefur unnið í 25 ár sem bakari og kokkur á Íslandi og í Noregi og vonast eftir svipaðri vinnu í Gimli, og jafnvel að stofna sitt eigið bakarí.

Hann segir að það muni taka nokkurn tíma að venjast flatlendinu eftir að hafa búið í fjalllendu landi, en er ánægður með móttökurnar sem hann hefur fengið í Gimli. „Allir sem ég hef hitt eru ákaflega vinalegir. Ég hlakka til að búa hérna, ef allt fer vel."

Þegar hefur Birgi boðist vinna sem kokkur á hóteli í Gimli. Áður en það getur orðið þarf hann þó að fljúga aftur heim og ganga frá nauðsynlegum pappírum svo hann geti fengið atvinnuleyfi í Manitoba. Segir í blaðinu að Birgir gæti orðið byrjun á nýrri bylgju íslenskra innflytjenda í Kanada, þar sem verið sé að vinna að regluverki sem á að auðvelda Íslendingum að fá vinnu þar landi.

Hótelstjórinn sem bauð Birgi vinnu, Michael Bruneau, hafði áður heitið því að útvega Íslendingum vinnu í Kanada. Hann segist í viðtalinu fá tölvupósta og símtöl frá fólki Íslandi sem vilji flytjast út. Hann hafi m.a. rætt við bankamann, sem fæddur er í Manitoba en hefur búið alla sína æfi á Íslandi, sem vilji freista þess að fá vinnu í Winnipeg. Þá hafi íslenskur arkitekt einnig verið á ferðinni í héraðinu til að kanna atvinnumöguleika.

Jón Axelsson, sem hefur aðstoðað Birgi ytra segir að þeir Íslendingar sem komi til Gimli muni fá mikinn stuðning. „Hér eru margir Íslendingar fyrir og við erum allir reiðubúnir að hjálpa," segir hann.

Grein Winnipeg Free Press

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert