Aurora úthlutar 111,5 milljónum króna

Frá úthlutun styrkja í gær
Frá úthlutun styrkja í gær

Stjórn Auroru velgerðasjóðs hefur úthlutað alls 111,5 milljónum króna í styrki til sex verkefna á sviði mannúðar, mennta og menningar hérlendis og í Afríkuríkjunum Síerra Leóne og Mósambík, þar af til fjögurra verkefna sem sjóðurinn hefur ekki styrkt áður.

Þetta er í annað sinn sem styrkir eru veittir úr Auroru velgerðasjóði sem hjónin Ingibjörg Kristjánsdóttir landslagsarkitekt og Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður Samskipa og Alfesca, stofnuðu 23. janúar 2007 og lögðu til einn milljarð króna.

Meðal þeirra sem fá úthlutað úr sjóðnum er Rauði kross Íslands sem fær 20 milljónir króna til stuðnings þremur verkefnum:
Hjálparsímanum 1717, aðgerðum RKÍ vegna efnahagsþrenginga í samfélaginu, sérstaklega þeim sem varða sálrænan stuðning. Vin, athvarfi RKÍ fyrir fólk með geðraskanir. Fjárhæðinni verður skipt á milli verkefnanna þriggja. Þörf fyrir aðstoð Rauða krossins af þessu tagi hefur aukist stórlega í efnahagskreppunni, að því er segir í tilkynningu frá sjóðnum en í stjórn hans sitja auk Ingibjargar og Ólafs þau Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ og Þórunn Sigurðardóttir, fyrrum listrænn stjórnandi Listahátíðar.

Samkvæmt stofnskrá er gert ráð fyrir að verja arði og vaxtatekjum sjóðsins til verkefna sem stuðlað geta að betra mannlífi á Íslandi og verkefna í þróunarlöndum. Að þessu sinni ákvað stjórn sjóðsins að leggja áherslu á verkefni hér á landi og því eru fjögur íslensk styrktarverkefni af alls sex. Þess má geta að það tókst að mestu leyti að verja eignir sjóðsins í efnahagshruninu og sjóðstjórn heldur því ótrauð áfram að starfa í þeim anda sem til var stofnað, að því er segir í tilkynningu.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert