Ísland hrunin frjálshyggjutilraun

Stefán Ólafsson.
Stefán Ólafsson.

„Hér á landi eru einhverjir róttækustu frjálshyggjumenn sem fyrirfinnast á Vesturlöndum,“ sagði Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, á fundi Samfylkingarfólks á Hótel Borg í kvöld. Umræðuefnið var skattamál og lýsti Stefán þróun í þeim málum frá 1995 til 2007, bæði hvað varðar hlutdeild þjóðfélagshópa í heildartekjum fjölskyldna í hverjum mánuði og skattbyrði á mismunandi tekjuhópa.

Á meðal þess sem Stefán lýsti var sú hlutdeild sem tíu ríkustu prósentin af Bandaríkjamönnum höfðu af heildartekjum fólks í Bandaríkjunum. Lýsti hann því hvernig sú hlutdeild var um 40% árið 1917 en hækkaði í um 50% fram að kreppunni miklu sem hófst árið 1929. Frá 1945 til 1980 var hlutdeildin nokkuð stöðugt í kringum 35%, en eftir 1980 fór hún að rísa aftur og náði um 50% á síðasta ári. Stefán sagði ekki til fullnægjandi gögn fyrir Ísland langt eftir en tók fram að árið 1993 voru ríkustu 10 prósent hjóna á Íslandi með um 19% af heildartekjum hjóna í landinu. Árið 2007 var þetta hlutfall orðið 40% að sögn Stefáns.

Stefán tiltók einnig að árið 1993 hefði ríkasta eina prósentið af íslenskum hjónum haft um 4,2% af heildartekjum hjóna. Það hlutfall hafi hins vegar verið 19,8% árið 2007. Ríkustu tíu prósentin hafi farið úr því hafa 21,8% heildarteknanna í að hafa 39,4% þeirra.

Á sama tíma hafi því allir aðrir, þ.e. hin 90 prósentin, farið úr því að hafa 78,2% af heildartekjunum í að hafa 60,6% hlutdeild í þeim.

„Ísland var frjálshyggjutilraun heimsins á 10. áratugnum,“ sagði Stefán. Sú tilraun hafi nú hrunið yfir þjóðina.

Stefán sagði einnig að ríkasta eina prósent fólks á Íslandi hafi á árinu 2007 haft að jafnaði 18,2 milljónir í tekjur á mánuði. Það séu 615 fjölskyldur og því sé mikilvægt að muna að það hafi ekki aðeins verið í kringum þrjátíu menn sem höfðu ofurlaun hér á landi. Á sama tíma voru meðaltekjur heimila hér á landi 657.000 krónur.

Stefán talaði á málfundi sem þingmaðurinn Steinunn Valdís Óskarsdóttir boðaði til, en þar hélt einnig ræðu Indriði H. Þorláksson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka