Lánin urðu að óláni

Landsbankinn í Lúxemborg.
Landsbankinn í Lúxemborg. mbl.is/Ólafur

Hundruð viðskiptavina Landsbankans í Lúxemborg þurfa nú að greiða lán, sem þeir tóku í bankanum, til baka. Lánin voru þó ekki með hefðbundnu sniði heldur fengu viðskiptavinirnir aðeins um 25% af láninu greitt út en afganginn átti bankinn að sjá um að ávaxta og gerðu viðskiptavinirnir samning um að hann fjárfesti í sjóðum, s.s. hlutabréfum, skuldabréfum og gjaldmiðlum.

Hugmyndin var að ávöxtun sjóðanna yrði þannig að viðskiptavinurinn þyrfti ekki að greiða lánið til baka. Innkoma sjóðsins sæi um það.

Bankinn skipaði þjónustufulltrúa fyrir viðskiptavinina sem hafði fullt umboð til fjárfestinganna, segir heimildarmaður Morgunblaðsins. Þjónustufulltrúinn átti að dreifa áhættunni og gekk vel að ávaxta féð allt fram á síðari hluta ársins 2007. Þá syrti að og upp úr mars í fyrra keyptu þjónustufulltrúarnir í æ meira mæli skuldabréf í íslensku bönkunum; aðallega Landsbankanum og Kaupþingi. Jafnvel í svo miklum mæli að viðskiptavinirnir töpuðu allt að 90% hluta lánsins sem bankinn átti að ávaxta er þeir féllu.

Lánin voru hugsuð fyrir vel stæða eftirlaunaþega á svæðum efnaðra í Evrópu. Samkvæmt netmiðlinum Round town news eru um 600 fjölskyldur í vanda á Spáni vegna lána sem þær tóku með þessum hætti í gegnum Lex life, dótturfyrirtæki Landsbankans í Lúxemborg. Heimildarmaður Morgunblaðsins segir viðskiptavinina sem tóku eignalánin ekki færri í Frakklandi.

Skiptastjórar Landsbankans í Lúxemborg, sem er nú gjaldþrota og í uppgjörsmeðferð, hafa hótað einhverjum viðskiptavinanna að ganga að eignum þeirra vegna lánanna. Bankinn hefur tapað fénu en viðskiptavinirnir þurfa þrátt fyrir það að greiða upp lánin, sem þeir fengu ekki í hendurnar, heldur létu bankanum eftir að ávaxta.

Nánar er fjallað um málið í Mogunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert