Lykilverk fari ekki úr eigu þjóðarinnar

Tryggvi Páll Friðriksson hjá Galleríi Fold býður upp málverk.
Tryggvi Páll Friðriksson hjá Galleríi Fold býður upp málverk. mbl.is/Friðrik

Tryggvi Páll Friðriksson, listmunasali hjá Gallerí Fold, segir í samtali við mbl.is að það sé bæði óskynsamlegt og óraunhæft að ætla að selja listaverk gömlu bankanna, líkt og Kjartan Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt til.

Tryggvi er ekki sammála því að það muni fást að meðaltali ein milljón kr. fyrir verkin, enda aðeins hluti þeirra mikils virði. Stór hluti sé hins vegar lítils virði. Það séu því litlar líkur á því að á bilinu fjórir til átta milljarðar fáist fyrir verkin 4000.

Þá bendir hann á að það sé hægara sagt en gert að selja öll verkin. Hann bendir á að á 10 ára tímabili hafi 20.000 verk verið boðin upp á landsvísu, en þau seldust ekki öll. Auk þess myndi skyndilegt framboð á listaverkum leiða til þess að þau myndu lækka í verði.

„Það sem fengist mest fyrir eru lykilverk. Fyrst þau eru á annað borð  komin aftur í eigu ríkisins þá finnst mér að þau eigi að vera þar áfram,“ segir hann og bætir við að það væri alveg eins hægt að selja listaverk úr safni Listasafns Íslands, Háskóla Íslands eða Alþingis, svo nokkur dæmi séu tekin.

 „Það dytti engri þjóð í hug að selja listaverk sem hún á. Ég veit ekki hvort Frökkum hefur dottið í hug að selja Mónu Lísu. Það yrði sjálfsagt fullt af kaupendum,“ segir Tryggvi að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka