Umfangsmikil kannabisræktun stöðvuð

„Þetta er það stærsta sem við höfum nokkurn tíma tekið,“ …
„Þetta er það stærsta sem við höfum nokkurn tíma tekið,“ segir yfirmaður fíkniefnalögreglunnar. Frá vettvangi í kvöld. mbl.is/Kristinn

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu réðist í kvöld til inngöngu í iðnaðarhúsnæði á Esjumelum á Kjalarnesi þar sem umfangsmikil kannabisræktun hefur verið starfrækt. Tveir hafa verið handteknir í tengslum við málið.

Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður fíkniefnadeildarinnar, segir í samtali við mbl.is í kvöld að lögreglan hafi lagt hald á mörg hundruð plöntur. „Það er enginn vafi á því að þetta er það stærsta sem við höfum nokkurn tíma tekið,“ segir hann.

Hann telur líklegt að kannabisplöntur hafi verið ræktaðar í húsnæðinu í nokkur ár. „Þessi hefur verið starfandi lengi, sýnist okkur,“ segir hann.

Lögreglan hefur nú lagt hald á rúmlega 3000 plöntur, sem er mun meira en hún gerði árin 2007 og 2008 til samans. „Ég veit ekki hvar þetta endar,“ segir Karl Steinar.

Aðspurður segir Karl Steinar að kannabisræktun hafi verið að færast í aukana á Íslandi undafarin ár. Það sé í takt við það sem sé að gerast á Norðurlöndunum. „Bæði á Norðurlöndunum og í Evrópu hefur verið aukin ræktun á kannabisplöntum innandyra og utandyra í þeim löndum sem hafa veðurfar til þess.“

Karl Steinar segir að lögreglan hafi lokað um 20 stöðum, þar sem kannabisplöntur hafa verið ræktaðar, á síðustu vikum og mánuðum. 

Um 10 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðunum í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka