Engin flokkspólitík

Gylfi Arnbjörnsson ræðir við ársfundarfulltrúa í dag.
Gylfi Arnbjörnsson ræðir við ársfundarfulltrúa í dag. mbl.is/RAX

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands,  kvaddi sér hljóðs á aukaársfundi sambandsins í dag til að gera grein fyrir því hvers vegna Vigdís Hauksdóttir hefði látið af störfum sem lögfræðingur ASÍ í kjölfar þess að hún tók 1. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.

Gylfi sagði, að það ætti ekki við nein rök að styðjast, að hann hefði viljað losna við Vigdísi úr starfi eða að flokkspólitík ætti þar einhvern hlut að máli. Sagðist Gylfi þvert á móti gjarnan hefði viljað njóta starfskrafta Vigdísar áfram, sem hafi staðið sig mjög vel í starfi fyrir ASÍ.

Vigdís segir við DV í dag, að hún undrist að hafa þurft að hætta störfum hjá ASÍ á sama tíma og Magnús Norðdahl, yfirlögfræðingur ASÍ, starfi þar áfram þótt hann hafi endað í 6. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Segir Vigdís, að greinilega sé verið að refsa sér fyrir pólitískar skoðanir.

Gylfi sagði á ASÍ-þinginu, að hann hafi vitað að Vigdís var framsóknarmaður þegar hún var ráðin til starfa hjá ASÍ. Hann sagði að Vigdís hefði hætt að eigin ósk og fengið að láta af störfum nánast samdægurs þar sem hún myndi leiða lista framsóknarmanna í  Reykjavíkurkjördæminu. Hann sagði ljóst, að með því að taka oddvitasætið á listanum væri Vigdís á leið á Alþingi og þar með að skipta um starfsvettvang. 

Gylfi sagðist sjálfur hafa gengið þingmann í maganum á sínum tíma og tekið þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík veturinn 2006. Gylfi var þá framkvæmdastjóri ASÍ. Sagðist Gylfi hafa rætt þetta við þáverandi forseta ASÍ og hann hefði hætt samdægurs hjá ASÍ hefði hann náð öruggu sæti í prófkjörinu. „Maður getur ekki notað stöðu sína hjá Alþýðusambandinu sér til framdráttar, til að koma sér á framfæri í flokki,“ sagði hann. Ekkert væri óeðlilegt við það að forystumenn í verkalýðshreyfingunni væru á framboðslistum flokka, lýstu þar skoðunum sínum og stuðningi, án þess að vera í forsvari fyrir listann.

Gylfi sagði að í frétt DV um málið í dag kæmu fram alvarlegar ásakanir í garð hans og annarra hjá ASÍ. Þetta kæmi honum verulega á óvart og ylli honum miklum vonbrigðum. „Þegar þetta mál kom upp með mjög stuttum fyrirvara einn laugardagsmorgunn [gerði] hún  grein fyrir því að henni stæði þetta til boða, að verða leiðtogi á öðrum lista Framsóknarflokksins í Reykjavík, sem við á þeim tímapunkti töluðum bæði um sem nokkuð öruggt sæti á Alþingi, og með hvaða hætti ég liti á það,“ sagði Gylfi.

Sagði hann að einnig hafi verið rætt með hvaða hætti starfslok Vigdísar yrðu. Það væri mjög stórt verkefni að taka að sér leiðtogasæti á lista „og hennar ósk var sú að hún gæti látið strax af störfum vegna þess að skyldur hennar sem leiðtogi á þeim lista myndu bresta á strax að loknu kjöti á þann lista. Niðurstaðan af þessu varð einfaldlega sú að það kæmi þá til starfsfloka,“ sagði Gylfi en tók fram að ekki væru skrifaðar reglur til hjá ASÍ þegar svona tilvik kæmu upp.

Gylfi sagði að mörkin hefðu verið dregin við það hvort viðkomandi einstaklingur væri kominn í sæti á framboðslista sem væri líklegt að tryggði viðkomandi þingsæti eða ekki. Þá lægi fyrir að viðkomandi væri að skipta um starfsvettvang. 

Gylfi sagði að þetta mál væri að sumu leyti mjög erfitt. Hann væri að missa mjög góðan starfsmann. Hins vegar vísaði hann á bug ásökunum um að þetta hafi borið að að hans frumkvæði. „Ég óska henni velfarnaðar í því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur. Ég hef sagt það við hana að ég líti bara til þess að eiga við hana gott samstarf sem þingmann á nýjum vettvangi, en ég verð algjörlega að vísa því frá að þetta mál hafi borið að með einhverjum hætti sem hún leggur upp með í viðtali við DV. Það á ekki við nein rök að styðjast og ég harma að það skuli lagt upp með þessum hætti,“ sagði Gylfi við þingfulltrúa á aukaársfundi ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka