Erlendir kröfuhafar SPRON, 35 bankar og fjármálastofnanir víðs vegar um heim, undrast að Fjármálaeftirlitið (FME) hafi tekið yfir rekstur sparisjóðsins og telja mögulegt að íslensk stjórnvöld hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þess. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hópur kröfuhafa sendi frá sér.
Fram kemur að kröfuhafarnir undrast að stjórnvöld skuli hafa hafnað hugmyndum þeirra um björgun, án þess að leggja fram sínar eigin tillögur. Um er að ræða 35 kröfuhafa, banka og fjármálastofnanir í 14 ríkjum Evrópu, Asíu og Miðausturlöndum. Þess er ekki getið í yfirlýsingunni, sem lögfræðingur hópsins sendi fjölmiðlum, hverjir kröfuhafarnir eru.
Kröfuhafarnir segja að unnið hafi verið hörðum handa að neyðaráætlun vegna reksturs Spron og hafi FME, Seðlabankinn og fleiri ríkisstofnanir fengið upplýsingar um þær aðgerðir. Í yfirlýsingunni segir að 27. febrúar sl. hafi SPRON og kröfuhafarnir fengið staðfestingu á því frá FME að vinnu við endurskipulagningu sjóðsins yrði að vera lokið fyrir 30. apríl nk. Neyðarúrræðin hafi m.a. falist í því að hluti erlendra skulda SPRON yrðu afskrifaðar og boðin yrðu hagstæð langtímalán til þess að tryggja rekstrargrundvöll sparisjóðsins.
Kröfuhafarnir telja að stjórnvöld hafi bakað sér ábyrgð, bæði lagalega og fjárhagslega, á því að taka sparisjóðinn yfir og Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið hugsanlega ekki gert sér fyllilega grein fyrir því hverjar gætu orðið afleiðingar aðgerðanna, sem urðu til þess að svo fór sem fór fyrir einum besta banka landsins.