Samkomulag hefur náðst milli stjórnmálaflokkanna á Alþingi um að leyfa persónukjör fyrir komandi þingkosningar. Samkomulagið felur í sér að fólk fær að raða á lista eftir skoðunum sínum.
Þetta verður kynnt með formlegum hætti síðar en fólk getur nú þegar byrjað að raða á framboðslista gegnum mbl.is, sem hefur gert samstarfssamning við stjórnvöld. Í tengslum við þetta hefur sérvefur verið búinn til á mbl.is þar sem almenningi gefst kostur á að raða á listana og hafa þar með áhrif.
Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segist fagna þessari niðurstöðu. Hann segir að þetta muni efla lýðræðið og aðkomu almennings að málum. „Ákall fólks um breytingar hefur haft áhrif,“ segir Dagur.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, tekur í svipaðan streng. „Mér líst afskaplega vel á þetta og tel að þetta sé skref í rétta átt,“ segir Steingrímur.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir þessi nýja útfærsla sé mun betri en sú, sem upphaflega var gert ráð fyrir í frumvarpi stjórnarflokkanna og því hafi sjálfstæðismenn ákveðið að styðja að frumvarp um persónukjör verði að lögum á yfirstandandi þingi. „Það er lýðræðislegt að þjóðin fái að segja sína skoðun í málinu.“
Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir eðlilegt að þjóðin fái síðasta orðið. „Áður vantaði vilja til verka á þingi, en nú er það breytt.“
Fram kemur í tilkynningu frá Framsóknarflokknum að það sé mikilvægt að óvissunni hafi verið eytt í þessu máli, sem flokkurinn hafi stutt frá upphafi.