Eitt af vandamálum Landsvirkjunar í heimskreppunni er bág staða lánveitenda fyrirtækisins. Þar eru stærstir heimsþekktir bankar, þar á meðal breski bankinn Barclays, hinn japanski Sumitomo, SEB frá Svíþjóð, hinn þýski Deutsche Bank, bandarísku bankarnir JP Morgan og Citibank, og svo hinn franski Societe General. Þeir eru allir laskaðir eftir þær hremmingar sem einkennt hafa fjármálamarkaði frá sumarmánuðum 2007, en þó helst frá því að lánamarkaðir lögðust saman á heimsvísu eftir gjaldþrot fjárfestingarbankans Lehman Brothers, 15. september í fyrra.
En þrátt fyrir að lausafjárstaða Landsvirkjunar sé sterk, á hefðbundna mælikvarða, blasa við vandamál taki lánamarkaðir ekki að breytast á næstu mánuðum.
Staða lánveitenda fyrirtækisins getur þar skipt töluvert miklu máli. Þangað þarf fyrirtækið að sækja lán til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar og starfað eftir áætlunum fram í tímann.
Fyrrnefndir bankar hafa margir hverjir þurft að reiða sig á beina hjálp frá stjórnvöldum í löndum þar sem þeir starfa, eða fengið nauðsynlega aðstoð frá seðlabönkum.
Þetta hefur gert það að verkum að bankar eru í slæmri stöðu til að lána. Í raun má segja að margir bankar séu enn að berjast fyrir lífi sínu.
Nokkuð er því í að þeir geti farið að stunda eðlilega lánastarfsemi og sinnt viðskiptavinum sínum, stórum sem smáum, með hefðbundnum hætti. „Í raun er vandamálið við hinn alþjóðalega efnahag nú um stundir ekki það að bankar séu að taka of mikla áhættu, heldur eru þeir þvert á móti að taka of litla áhættu [...] Banka og aðrar fjármálastofnanir skortir bakland til að fá traust til að lána,“ sagði Robert Peston, viðskiptaritstjóri breska ríkisútvarpsins BBC, á bloggsíðu sinni í gær. Forsvarsmenn Landsvirkjunar hafa haldið góðu sambandi við lánveitendur síðan bankakerfið hér á landi hrundi og lánshæfismat íslenska ríkisins, og þar með Landsvirkjunar, var lækkað. Meðal annars hafa starfsmenn fyrirtækisins fundað með fyrrnefndum bönkum og rætt stöðuna, eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu.
Vísbendingar um fjármögnunarmöguleika Landsvirkjunar eins og mál standa nú má meðal annars ráða af álagi á skuldabréf fyrirtækisins. Að sögn Agnars Tómasar Möller, hjá GAM Management, hefur vaxtaálagið farið vaxandi að undanförnu sem þýðir minnkandi tiltrú markaðarins á fyrirtækinu. „Við höfum séð nokkurt framboð að undanförnu á skuldabréfum útgefnum af Landsvirkjun í erlendri mynt og vaxtaálag þeirra hefur farið vaxandi. Í vikunni sáum við til að mynda bréf með gjalddaga eftir 5 til 17 ár sem voru með um 18 prósenta vaxtaálagi, sem samsvarar því að hægt sé að kaupa bréfið á 61 prósents afslætti annars vegar og 88 prósenta hins vegar vegar, miðað við höfuðstól bréfanna.“
Tekjurnar minnka
Vegna lækkandi álverðs í heiminum undanfarin misseri, um 70 prósent á sjö til átta mánuðum, hafa tekjur Landsvirkjunar af raforkusölu til álvera minnkað. Orkusölusamningarnir eru tengdir verði áls og því hefur breyting á álverðinu bein áhrif á tekjurnar.Þegar álverð fór sem hæst í fyrra, upp í um 3.300 dollara á tonnið, gerði fyrirtækið framvirka samninga til að tryggja fyrirtækið fyrir verðlækkun. Þessir samningar draga úr áhrifum af verðlækkuninni. Þrátt fyrir það var tap Landsvirkjunar í fyrra um 40 milljarðar, en stóran hluta þess má þó rekja til gangvirðisbreytinga á innbyggðum afleiðum. Tapið virðist því meira en það í raun er þar sem afleiðurnar eru ekki innleystar nema að hluta. Þá hefur lágt vaxtastig bandaríska seðlabankans einnig dregið úr fjármagnskostnaði fyrirtækisins, en stýrivextir þar eru nú 0,25 prósent. Til samanburðar eru þeir 17 prósent hér á landi en víðast hvar á bilinu 0-4 prósent.