Hagsmunir sjúklinga fyrir róða með lyfjalöggjöf

Lyf
Lyf Sverrir Vilhelmsson

 „Við erum ekki að kæra íslensk heilbrigðisyfirvöld. heldur leggja fram kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA sem byggir á þeirri skoðun okkar að íslensk heilbrigðisyfirvöld hafi með setningu þessarar reglugerðar brotið allar grundvallarreglur á hinu Evrópska efnahagssvæði,“ segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka. 

Jakob gerir athugasemdir við orð Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra um að félagið sé að ráðast gegn þjóð í þrengingum með því að kæra nýja reglugerð um sparnað í lyfjaútgjöldum. „Við erum sérstaklega mótfallin þeirri staðreynd að með þessari ákvörðun þá er í raun og veru aðeins eitt fyrirtæki sem situr að öllum markaðnum. Öllum öðrum fyrirtækjum er gert ókleift að vera með á þessum markaði og þar er hagsmunum sjúklinga kastað fyrir róða, vegna þess að lyf eru mikilvægustu verkfæri læknisins og ef stjórnmálamennirnir eiga að taka ákvörðun um hvaða lyf læknirinn getur notað þá er mjög illa fyrir okkur komið.“

Að auki segir Jakob að reglugerðin hafi verið sett með mjög skömmum fyrirvara og því hafi engin tækifæri gefist til að bregðast við henni. Frumtök hafa því óskað eftir því að eftirlitsstofnun EFTA taki til skoðunar hvort reglugerðin standist. „Við teljum að þetta sé mjög ómálefnaleg og órökstudd ákvörðun af hálfu ráðuneytisins, tekin aðeins til að ná niður kostnaði. Að sjálfsögðu erum við tilbúin til þess að leggjast á árarnar með heilbrigðisyfirvöldum, þannig að þegar hann [Ögmundur] hnýtir í okkur með þeim formerkjum að við séum einhver undantekning frá því að vilja taka höndum saman þá er það ekki rétt.

„Mér þykir allt orðfæri ráðherrans og framganga í þessu máli og þau gífuryrði sem hann kaus að nota í okkar garð benda til þess að þar fari stjórnmálamaður sem hafi ekki alveg hreina samvisku í þessu máli og hann finni og skilji sjálfur að þessi ákvörðun er tekin án þess að standast nákvæma skoðun þegar kemur að því hvaða lög og reglur gilda í þessu landi.“

Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka
Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert