Trúnaðarmenn BHM leituðu skýringa hjá ráðherra

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna.
Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna.

Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna, segir að fundur heilbrigðisráðherra með trúnaðarmönnum BHM í morgun hafi verið góður. Hún tekur fram að BHM hafi óskað eftir því fyrir páska að fá fund með ráðherra. Fundurinn hafi því ekki verið boðaður vegna gagnrýni bandalagsins á umræðu um launalækkanir.

Á fundinum gafst trúnaðarmönnum tækifæri á að ræða stöðu mála og framtíðarhorfur milliliðalaust við Ögmund Jónasson heilbrigðisráðherra. Fjallað var um samráð og samstöðu innan heilbrigðisgeirans og stöðu heilbrigðisþjónustu á krepputímum.

Guðlaug segir mikilvægt að þeir sem starfi í heilbrigðisgeiranum fái tækifæri til skoðanaskipta um málefni heilbrigðisþjónustu í landinu. Engin ræði um velferðarkerfið án þess ræða um atvinnumál í leiðinni.  „Við vorum mjög þakklát fyrir þennan fund og hann var í alla staði mjög góður,“ segir Guðlaug.

Hún segir að á fundinum hafi Ögmundur verið beðinn um að útskýra hvað hann ætti við þegar hann segir að það eigi að jafna kjörin í landinu. „Það hafa allir áhuga á því að heyra hvað segja menn að séu há laun. Um hvað er verið að tala þegar það er verið að tala um að jafna kjör og leiðrétta og eyða kjaramun. Um hvaða stærðir er verið að tala,“ segir Guðlaug.

Það hafi komið fram á fundinum að það þurfi að styrkja og efla velferðarkerfið ekkert síður en að verja það. Auk þess hafi verið bent á að kjaraskerðing sé löngu hafin. „Heilbrigðisstarfsmenn kannast ekki við neitt annað en að hafa stundað mjög aðhaldssama starfshætti til margra ára,“ segir hún.

Aðspurð segir Guðlaug að fundargestir hafi klappað fyrir Ögmundi þegar hann sagði að taxtar ættu að standa og að ekki eigi að hrófla við þeim kjörum sem eru bundin í kjarasamningum. „Því var tekið vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert