Fylgst með farþegum

Farþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Farþegar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Þorkell

Fylgst verður með þeim sem koma til landsins einkum frá Bandaríkjunum og Mexíkó. Þetta þýðir að ef  minnstu einkenna um inflúensu verður vart hjá viðkomandi þá undirgangast þeir læknisrannsókn. Þetta var ákveðið á fundi sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í morgun.

Eins er lögð áhersla á að upplýsa aðila innan heilbrigðisþjónustunnar og  að hægt verði að taka strax sýni og bjóða inflúensusjúklingum upp á meðferð.   Almannavarnadeildin leggur áherslu á að upplýsa sína tengiliði og samhæfa viðbrögð samkvæmt fyrirliggjandi áætlun.    Í morgun áttu sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fund með fulltrúum stofnana sem gegna lykilhlutverki í viðbúnaðaráætlun vegna inflúensufaraldurs.

Á fundinum voru lögð fram drög  að framkvæmd sóttvarna og viðbúnaði í samræmi við viðbragðsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu. Niðurstaða fundarins var sú að allir aðilar eru vel undirbúnir í samræði við áætlanir sem fyrir liggja, að því er segir í tilkynningu.

 Í gærkvöldi lýsti alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) yfir því að hættustig vegna hugsanlegs heimsfaraldurs inflúensu hafi verið uppfært frá 3. stigi til þess 4. sem samsvarar hættustig almannavarnakerfisins hér á landi.  Hér á landi hefur vinna hafist  samkvæmt hættustigi almannavarna og markmið eru að halda nýjum inflúensustofni innan afmarkaðs svæðis,  seinka útbreiðslu og vinna þannig tíma til að bregðast við.  

Flensulyf til fyrir þriðjung þjóðarinnar

Tölur um staðfest svínaflensusmit  benda til þess að útbreiðsla svínainflúensu um heiminn sé umtalsverð. Í Bandaríkjunum þar sem flest tilfelli hafa verið staðfest er um vægan sjúkdóm að ræða. Ekki hafa borist fregnir um að sjúkdómstilvik sem greinst hafa annars staðar en í Mexíkó séu alvarleg. Í ljósi þess hve útbreiðsla inflúensunnar virðist umfangsmikil mælir WHO ekki með ferðatakmörkunum.

Svínainflúensan sem nú geisar í Banaríkjunum og Mexíkó  er næm fyrir veirulyfjunum Tamiflu (oseltamivir) og Relenza (zanamivir) en ónæm fyrir amantidín-lyfjum. Á Íslandi eru til lyfjabirgðir af Tamiflu og Relenza fyrir þriðjung þjóðarinnar.

Reuters
Reuters
Reuters
Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka