Gengu í skrokk á stúlkunni

Fimmtán ára stúlka varð fyrir árás kynsystra sinna í Heiðmörk síðdegis í dag. Stúlkan kom í fylgd foreldra sinna til lögreglunnar um kl. 18 í kvöld og tilkynnti um líkamsárásina. Hún er með áverka í andliti en er ekki brotin. Málið er í rannsókn.

Að sögn lögreglunnar hafði stúlkan farið upp í bíl með 6-7 aðeins eldri stúlkum sem hún kannaðist við. Þær tóku hana upp í Hlíðunum og fóru með hana upp í Heiðmörk. Þegar þangað var komið gengu tvær þeirra í skrokk á stúlkunni. Síðan óku þær stúlkunni til Hafnarfjarðar og skildu hana eftir verslunarmiðstöðina Fjörð. 

Foreldrarnir fóru síðan með stúlkuna á slysadeild þar sem læknir fór yfir áverka hennar. Í kjölfar þess fóru foreldrar stúlkunnar með hana til lögreglunnar. 

Tilefni árásarinnar liggur ekki ljóst fyrir að sögn lögreglu en unnið er að rannsókn málsins. 

Að sögn Ríkisútvarpsins hafði stúlkan sem ráðist var á átt i deilum við eina af þeim sem á hana réðust. Stúlkan sem hún hafði deilt við hafði beðið hana að hitta sig svo þær gætu sæst. Tvær stúlkur sóttu síðan fórnarlambið á bíl. Þær óku síðan að Suðurveri þar sem fimm aðrar stúlkur bættust í hópinn. Þaðan var ekið í Heiðmörk og þar sem ráðist var á stúlkuna og hún barin í andlitið. Þær fóru aftur í bílinn og héldu barsmíðunum áfram. Stúlkurnar hótuðu fórnarlambinu lífláti og heimtuðu 150 þúsund króna greiðslu á morgun. Stúlkan var svo skilin eftir illa útleikna við Fjörðinn í Hafnarfirði. 

Systir fórnarlambsins sagði við RÚV að ekki hefði mátt muna miklu að varanlegur skaði hefði hlotist af árásinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka