Um 40 prósent lána slæm

Tæplega 40 prósent af eignum nýju bankanna þriggja voru flokkuð sem slæm lán í minnisblaði ráðgjafarfyrirtækisins Oliver Wyman frá því í janúar. Lán fyrirtækja eru skilgreind sem slæm ef þau hafa verið lengur en 90 daga í vanskilum. Heimildir Morgunblaðsins herma að staðan hafi versnað síðan.

Að mestu er um að ræða lán bankanna til rekstrarfyrirtækja þar sem þorri lána til eignarhalds- og fjárfestingarfélaga var skilinn eftir í gömlu bönkunum. Einungis þriðjungur lánanna telst góður, skv. minnisblaðinu.

Oliver Wyman skilaði samhæfðu endurmati á skuldum og eignum Nýja Landsbanka (NBI), Nýja Kaupþings og Íslandsbanka til Fjármálaeftirlitsins (FME) í síðustu viku. Það hefur enn ekki verið gert opinbert.

Í minnisblaði Wymans, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, segir orðrétt: „núverandi staða Íslands er verri en nokkur kreppa sem einstök þjóð hefur þolað síðan í kreppunni miklu“. Því er það mat fyrirtækisins að íslenska bankakreppan sé sú alvarlegasta sem hafi hent þjóðríki í tæp 80 ár.

Máli sínu til stuðnings ber Wyman áætlað hlutfall slæmra lána í nýju íslensku bönkunum saman við kreppur í Taílandi (33 prósent), Kóreu (18 prósent), Svíþjóð (18 prósent) og Noregi (níu prósent) sem öll gengu í gegnum miklar bankakreppur á síðustu tveimur áratugum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert