Ögmundur vill sérstakan skatt á sykraða gosdrykki

Ögmund­ur Jónas­son heil­brigðisráðherra, vill setja sér­stak­an skatt á sykraða gos­drykki. Hann lýsti þessu yfir í ræðu á árs­fundi Sjúkra­húss­ins á Ak­ur­eyri í dag.

„Það er vitað að 10-15% barna á Íslandi býr við afar slæma tann­heilsu og það kall­ar á kröft­ug viðbrögð stjórn­valda,“ sagði Ögmund­ur í sam­tali við Morg­un­blaðið eft­ir fund­inn á Ak­ur­eyri í dag.

Ögmund­ur sagði að ástandið kallaði á sam­starf við heil­brigðis- og skóla­yf­ir­völd og málið sner­ist fyrst og fremst um neyslu­mynst­ur. „Það er hægt að hafa áhrif á það, eins og for­seti heil­brigðis­vís­inda­sviðs Há­skóla Íslands og pró­fess­or í nær­ing­ar­fræði bentu á í grein í Morg­un­blaðinu á dög­un­um. Sér­fræðing­ar Lýðheilsu­stöðvar hafa bent á þetta um ára­bil og á það verður að hlusta. Ég mun því taka málið upp í rík­is­stjórn­inni og vil að við gríp­um til varn­araðgerða hið fyrsta, og að skoðað verði að setja sér­staka skatta á sykraða gos­drykki,“ sagði Ögmund­ur Jónas­son.

Tveir vís­inda­menn, Sig­urður Guðmunds­son, for­seti heil­brigðis­vís­inda­sviðs Há­skóla Íslands, og Inga Þórs­dótt­ir, pró­fess­or í nær­ing­ar­fræði, rituðu grein í Morg­un­blaðinu í byrj­un mánaðar­ins þar sem þau hvetja til stýrðrar skött­un­ar á neyslu.

Í grein­inni kom fram að fram­boð gos­drykkja hér­lend­is hef­ur auk­ist ár frá ári, þannig var það tæp­ir 19 lítr­ar á mann á ári milli 1956 og 1960, rúm­lega 40 lítr­ar 10 árum síðar og tæp­ir 75 lítr­ar 1976 til 1980. „Árið 1999 virðist fram­boðið ná há­marki, 160 lítr­um á íbúa á Íslandi. Þetta svar­ar til rúm­lega hálfs lítra á mann á dag sem auðvitað er mis­skipt frá engu til mjög mik­ils gos­drykkjaþambs. Síðasta rann­sókn sem gerð var á lands­grund­velli á mataræði full­orðinna Íslend­inga af Lýðheilsu­stöð staðfest­ir þetta. Rann­sókna­stofa í nær­ing­ar­fræði við Há­skóla Íslands og Land­spít­ala hef­ur rann­sakað mataræði barna og ung­linga sem sýn­ir meiri neyslu sykraðra gos­drykkja með vax­andi aldri. Meðal­neysla 7 ára barna er desi­lítri á dag, 9 ára rúm­lega 1 og hálf­ur desi­lítri og svo fram­veg­is,“ seg­ir í grein­inni.

Þau segja enn­frem­ur: „Það er í þágu lýðheilsu í land­inu að spyrna nú við fót­um svo um mun­ar. Auka­gjald sem nem­ur tíu krón­um á lítra gæfi rík­iskass­an­um um hálf­an millj­arð á ári miðað við rúm­lega 150 lítra fram­leiðslu og sölu að meðaltali á mann á ári. Lang­tímasparnaður sam­fé­lags­ins næðist síðan með minni neyslu og bættri heilsu,“ seg­ir í grein Sig­urðar og Ingu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert