Athugasemd frá Háskóla Íslands

Há­skóli Íslands hef­ur sent frá sér at­huga­semd­ar vegna  frétt­ar í Morg­un­blaðinu 20. maí um For­leif­a­stofn­un Íslands.

„Er rétt að fram komi að Há­skóla Íslands barst bréf frá mennta­málaráðuneyt­inu 7. apríl sl. þar sem at­hygli Há­skól­ans er vak­in á til­teknu máli sem varðar sjálf­seign­ar­stofn­un­ina Forn­leif­a­stofn­un Íslands. Með bréfi ráðuneyt­is­ins fylgdu bréf og gögn sem ráðuneyt­inu hafði borist frá Fram­kvæmda­sýslu rík­is­ins, en tveir af starfs­mönn­um Há­skól­ans tengj­ast Forn­leif­a­stofn­un.

Há­skól­inn hafði áður fengið í hend­ur um­rædd gögn frá Fram­kvæmda­sýsl­unni. Rétt er að taka fram að eng­in form­leg tengsl eru á milli Há­skóla Íslands og Forn­leif­a­stofn­un­ar. Gögn Fram­kvæmda­sýsl­unn­ar fela í sér ábend­ing­ar um að til­greind­ir starfs­menn Há­skól­ans kunni að hafa sýnt fram­komu eða hátt­semi sem ekki sé í sam­ræmi við starfs­skyld­ur þeirra sem kenn­ara við skól­ann.

Mál þetta er til al­var­legr­ar skoðunar inn­an skól­ans að því marki sem það lýt­ur að hon­um. Verið er að afla upp­lýs­inga frá þeim starfs­mönn­um Há­skól­ans sem nefnd­ir eru í gögn­um frá Fram­kvæmda­sýsl­unni og rætt hef­ur verið við nem­anda skól­ans sem nefnd­ur er í gögn­un­um.

Þegar at­hug­un máls­ins er lokið verður gripið til viðeig­andi aðgerða af hálfu Há­skól­ans ef til­efni verður til. Í frétt Morg­un­blaðsins er sagt að Ad­olf Friðriks­son sé pró­fess­or við Há­skóla Íslands. Það er ekki rétt. Hann var stunda­kenn­ari í forn­leifa­fræði við skól­ann, síðast árið 2007. Orri Vé­steins­son gegn­ir hins veg­ar starfi dós­ents við Há­skól­ann."

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka