Sex flensutilfelli rannsökuð

Sýni úr sex einstaklingum eru til rannsóknar um hvort þeir …
Sýni úr sex einstaklingum eru til rannsóknar um hvort þeir hafi smitast úr svínaflensu. Þegar hefur verið staðfest eitt tilfelli flensunnar hér á landi. Reuters

Gert er ráð fyrir að niðurstöður rannsókna á sýnum vegna gruns um sex tilfelli inflúensu A (H1N1) liggi fyrir á morgun, mánudag. Viðkomandi einstaklingar tilheyra fjölskyldu mannsins sem greindist með inflúensuna fyrir helgi. Enginn viðkomandi er alvarlega veikur.

Í gær var greint frá því að staðfest væri að einn maður hafi smitast af svínafflensu og að fjórir ættingjar hans hafi einnig veikst en ekki væri staðfest að um H1N1 flensu væri að ræða. Enn hefur einungis eitt tilvik verið staðfest en sex eru til rannsóknar eins og áður sagði.

Áfram er í gildi hættustig hér á landi samkvæmt viðbragðsáætlun um inflúensufaraldur. Ekki er talin ástæða til að fara á neyðarstig þrátt fyrir að staðfest hafi verið að inflúensa A (H1N1) sé komin til Íslands, enda eru veikindin væg. Þetta kom fram á fundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í morgun. 

Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eru áfram hvattir til að senda sýni í greiningu á veirufræðideild Landspítalans frá sjúklingum með inflúensulík einkenni.

91 látinn úr flensunni

Á morgun, mánudaginn 25. maí, verður sameiginlegur fundur sóttvarnalækna og lögreglustjóra á landinu öllu í Reykjavík. Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild boðuðu til fundarins fyrir nokkru til að fjalla um gildandi viðbragðsáætlanir vegna farsótta og hlutverk hvers og eins í því sambandi.

Samkvæmt upplýsingum Sóttvarnarstofnunar ESB voru í morgun staðfest tilfelli inflúensu A (H1N1) alls 12.433 í 46 ríkjum. Langflest tilfelli eru í Bandaríkjunum eða 6.552 en í þeirri tölu eru einnig líkleg flensutilfelli þar í landi. Alls hefur 91 sjúklingur látist af völdum veikinnar, þar af 80 í Mexíkó. Níu hafa látist í Bandaríkjunum, einn í Kanada og einn í Kosta Ríka.

Allar upplýsingar um flensuna er að finna hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert