Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hitti Dalai Lama andlegan leiðtoga Tíbet á sérstökum fundi klukkan eitt en ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að hitta hann ekki meðan á heimsókn hans stendur. Dalai Lama heimsækir Alþingi Íslendinga klukkan hálf tvö. Jóhanna Sigurðardóttir var ekki á ríkisstjórnarfundi í morgun en hún er stödd úti á landi.
Ögmundur Jónasson segir að leiðtoginn hitti fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi þegar hann hitti utanríkismálanefnd Alþingis. Þannig sé leiðtoganum sýndur fullur sómi. Hann segist ekki vita til þess að ósk hafi komið frá Dalai Lama um að hitta Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.
Ögmundur segist hafa mótmælt mannréttindabrotum í Tíbet við Kínverska sendiráðið í fyrra og haldið ræðu á mannréttindasamkomu um svipað leyti til stuðnings baráttu Tíbeta. Hann segist þiggja með þökkum að hitta þennan merka nóbelsverðlaunahafa og baráttumann fyrir friði í heiminum.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að Dalai Lama sé ekki þjóðhöfðingi ríkis sem Ísland eigi í stjórnmálasambandið við en hans heimsókn sé ekki á sama grunni og þegar um erlenda þjóðhöfðingja sé að ræða. Hann segir að það sé þekkt að kínversk stjórnvöld sýni óánægju sé leiðtoganum gert of hátt undir höfði. Það komi þó ekki í veg fyrir að honum sé boðið hingað og honum sýndur margvíslegur sómi. Kínversk stjórnvöld verði bara að láta sig hafa það.