Tjaldborg heimilanna er komin til að vera, segir Þorvaldur Þorvaldsson smiður sem gæddi sér og öðrum á heitu kakó fyrir utan tjald sitt á Austurvelli. Hann sagðist ekki útiloka að tjaldbúar héldu kyrru fyrir í tjöldum sínum í nótt og jafnvel fleiri nætur.
Að minnsta kosti þrenn mótmæli voru á Austurvelli síðdegis en fremur dræm þátttaka í þeim öllum. Námsmenn mótmæltu því að námslánin standi í stað, fólk hélt áfram að mótmæla Icesavesamningnum og Hagsmunasamtök heimilanna slógu upp tjöldum.
Þorvaldur Þorvaldsson segir að Icesavemálið hafi hleypt nýju blóði í mótmælin því fólk skilji ekki að stjórnvöld vilji greiða 630 milljarða tiil Breta vegna Icesave en telji sig ekki geta hjálpað heimilunum neitt.
Björg F. Elíasdóttir segir gekk um í íslenskum búningi með fána sagðist vera að mótmæla Icesave samningnum. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi alltaf komið á svona samningum sem hafi leitt til þess að þjóðir hafi misst allar auðlindur sínar í hendur á stórfyrirtækjum. Fólk verði að fara að opna augun, Það sé ekki líklegt að Ísland sé eina landið í heiminum sem komist hjá því að missa allt sitt vegna Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.
Á sama tíma og námsmenn mótmæltu á Austurvelli sat stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna á fundi og fór yfir nýjar úthlutunarreglur. Hildur Björnsdóttir laga og stjórnmálafræðinemi segir að námsmenn vilji ekki að stjórnin skrifi undir þessar reglur. Þær geri ekki ráð fyrir neinni hækkun milli ára og í gríðarlegri verðbólgu verði mikil skerðing á grunnframfærslunni.